139. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2011.

úrskurður kærunefndar jafnréttismála, nr. 3/2010, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[12:33]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Frú forseti. Umræðuefnið hér er það að hæstv. forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, sem jafnframt er eftir því sem mér skilst jafnréttisráðherra, a.m.k. ef formennska hennar í ráðherranefndinni um jafnréttismál er lögð til grundvallar, braut jafnréttislög. Kærunefnd jafnréttismála sem þáverandi félagsmálaráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, skipaði sjálf 1. maí 2008 komst að þessari niðurstöðu eftir mjög vandlega yfirferð.

Sami þáverandi félagsmálaráðherra lagði fram og fékk samþykkt ný jafnréttislög árið 2008. Þar beitti ráðherrann sér sérstaklega fyrir því að herða lögin, herða viðurlög, gera kærunefnd jafnréttismála hærra undir höfði en áður tíðkaðist og gera úrskurði hennar bindandi. Þetta hefur nefnilega verið aðferðafræði þessa hæstv. ráðherra. Til að ná markmiðum sínum vill hún leggja auknar skyldur á fólk og fyrirtæki og herða viðurlög ef lögum er ekki fylgt, en það á kannski ekki við um ríkisstjórnina sjálfa og ráðherra hennar eins og við höfum nú dæmi um.

Af hverju skyldi það vera? Af hverju voru ný jafnréttislög sett árið 2008? Því verður best lýst með eigin orðum ráðherra í framsöguræðu með málinu, með leyfi forseta:

„Jafnréttismál eru mannréttindamál en þeim er sýnd fullkomin óvirðing ef eftirfylgni með þeim er virt að vettugi eða sett margfalt neðar í forgangsröðina um virkt eftirlit en t.d. samkeppnis- eða fjármálalöggjöfin.“

Hæstv. ráðherra sagði enn fremur:

„Ég er sammála síðasta ræðumanni um að jafnrétti er þjóðarnauðsyn. En ég vil jafnframt minna hv. þingmann á að það eru nær 50 ár síðan sett voru jafnréttislög sem ekki hefur verið farið eftir. […] Þegar kærunefnd úrskurðar brot á jafnréttislögum þá er úrskurði kærunefndar ekki einu sinni fylgt eftir.“

Þetta sagði hæstv. ráðherra í framsöguræðu sinni. Þessu ætlaði þáverandi hæstv. félagsmálaráðherra að breyta og bæta þegar hún hafði tækifæri til, gera úrskurði kærunefndarinnar bindandi fyrir málsaðila í stað álitsgerða áður, færa framkvæmdina nær því sem hún er á öðrum Norðurlöndum. Þess vegna, frú forseti, eru viðbrögð hæstv. ráðherra í besta falli aumkunarverð. Hún beitir fyrir sig faglegu skálkaskjóli. Mér taldist til að í tíu mínútna ræðu hæstv. ráðherra hafi orðið „faglegt“ komið átta sinnum fyrir. Það að segja að hlutir séu faglegir gerir þá ekki endilega faglega. Það kallast innstæðulausar yfirlýsingar. Í yfirlýsingu forsætisráðuneytisins í gær sagði að ráðherrann hefði engin afskipt haft af málinu nema leggja áherslu á að hæfasti umsækjandinn væri skipaður og að jafnréttislögum væri framfylgt.

Frú forseti. Hvað erum við þá að gera hér? Jú, það er mat kærunefndar jafnréttismála að þetta ráðningarferli hafi nefnilega ekki verið faglegt þótt það hafi verið sagt átta sinnum hér áðan. Þvert á móti segir kærunefndin í sínum úrskurði að lög hafi verið brotin. Kærunefndin fór yfir öll rök í málinu og það er mjög aumt þegar hæstv. forsætisráðherra reynir að gera lítið úr úrskurði kærunefndarinnar sem hún sjálf barðist fyrir að yrði bindandi og sem hún skipaði sjálf. Kærunefndin tekur sérstaklega fram í úrskurðinum að þetta hafi tekið langan tíma vegna umfangs málsins og vegna mikillar gagnaöflunar. Grípum aðeins niður í úrskurðinn, með leyfi forseta:

„Hvorki liggja fyrir nákvæm gögn um það hvernig umsækjendur svöruðu einstökum spurningum né önnur greinargóð gögn um það hvernig svörin voru metin. Hefði slík greining þó verið mjög mikilvæg, sérstaklega þegar höfð er hliðsjón af því að í sumum tilvikum gengur einkunnagjöf fyrir hæfnisþætti í berhögg við hlutrænar upplýsingar sem fyrir liggja í málinu.“

Þetta hljómar mjög faglega. Þar segir enn fremur:

„Vegna skorts á gögnum hefur kærunefndin takmarkaðar forsendur til að leggja sérstakt mat á stigagjöfina …“

Þetta hljómar líka mjög faglega. Kærunefndin segir í raun með úrskurði sínum að ekki hafi verið faglega staðið að málum því að ef það hefði verið gert hefði niðurstaðan orðið önnur. Það er úrskurðurinn. Forsætisráðherra segir hins vegar að faglega hafi verið staðið að málum og setur því ofan í við nefndina og er því komin í stríð við nefnd sem hún sjálf skipaði. Til hvers að fara yfir málið með rýnihópi, hlutlausum rýnihópi úr háskólasamfélaginu, ef ráðherra telur að ekki þurfi að bæta eitt eða neitt af því að faglega hafi verið staðið að málum? Hljóta ekki viðbrögð allra sem fá á sig úrskurð hér eftir um að hafa ekki farið að þessum lögum, rök þeirra aðila, að verða þau að víst hafi verið staðið faglega að málum? Þetta verður niðurstaðan eftir þetta ferli.

Er forsætisráðherra kannski komin að þeirri niðurstöðu að ráðningar séu alltaf svo matskenndar að það sé ekki í rauninni á færi nefndarinnar að skera úr um hvort rétt hafi verið staðið að málum? Virka sem sagt ekki lögin sem þáverandi hæstv. félagsmálaráðherra barðist svo mikið fyrir og setti og lagði fram? Ég hélt að hæstv. ráðherra ætlaði að breyta heiminum. Hún vísar í það að svona hafi þetta verið gert, við gerum þetta öðruvísi. En það er óvart líka ekki alveg í lagi.

Hvað ætlar hæstv. ráðherra að gera í framhaldinu, hvað ætlar hæstv. ráðherra að læra af þessu? Hvernig væri að byrja á því að fara eftir lögunum? Hæstv. ráðherra hefur tvo kosti í stöðunni samkvæmt lögunum sem hún sjálf setti: Að greiða kæranda skaðabætur eða sækja málið fyrir dómstólum. Hvora leiðina ætlar hæstv. ráðherra að fara? Útilokar hæstv. ráðherra að fara með málið fyrir dómstóla? Við þessari spurningu vil ég fá skýrt svar.

Alltaf skal sá ágæti ráðherra og þessi hæstv. ríkisstjórn deila við dómarann. Við vorum í atkvæðagreiðslu um hæstaréttarsniðgöngu rétt áðan.

Það er reyndar önnur leið í boði og það er sú leið að hæstv. ráðherra taki sjálfa sig á orðinu frá því að hún var í stjórnarandstöðu og axli pólitíska ábyrgð. Ritstjóri Fréttablaðsins kallaði þetta skólabókardæmi um tvöfalt siðgæði. Ég leyfi mér að taka undir það. Ég hvet hæstv. forsætisráðherra til að íhuga vel orð sín í fyrndinni, það mundi ég gera ef ég væri í hennar sporum.