139. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2011.

úrskurður kærunefndar jafnréttismála, nr. 3/2010, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[12:47]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir yfirferð hennar hér á þessu máli sem snýr að ábyrgð hennar sem forsætisráðherra og yfirmanns þá í því ráðuneyti sem heyrir undir hana. Úrskurðarorð þess úrskurðar sem við tölum hér um eru svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Forsætisráðherra braut gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, við skipun í embætti skrifstofustjóra á skrifstofu stjórnsýslu- og samfélagsþróunar í forsætisráðuneytinu.“

Ráðherra braut gegn ákvæðum laga, ráðherra gerðist því brotlegur við lög samkvæmt þessum úrskurðarorðum. Þar af leiðandi er mjög ódýrt, svo ég noti bara það orð, að vísa ábyrgðinni yfir á ferli, hugsanlega embættismenn eða ráðgjafa um að þetta allt saman skyldi klúðrast. Það er að sjálfsögðu ráðherrann sem ber ábyrgðina þegar upp er staðið.

Ráðherrann horfir gjarnan til baka, gerði það í ræðu sinni og var að mínu viti að reyna að réttlæta það eða skýra út fyrir okkur að hennar brot væri allt öðruvísi og minna en einhverra ráðherra í fortíðinni. Eigum við að horfa til baka til að leita réttlætingar á mistökum eða lögbrotum sem við gerum í dag eða eigum við að horfa til baka til fortíðarinnar til þess að læra? Skilaboðin sem við þingmenn fengum hér eftir rannsóknarskýrslu Alþingis voru þau að við ættum að læra. Ég get ekki séð að hæstv. forsætisráðherra ætli sér að læra nokkurn skapaðan hlut, heldur að réttlæta það að hæstv. ráðherra ætli sér að sitja áfram vegna þess að þetta var miklu alvarlegra í fortíðinni.

Ég er ósammála hæstv. ráðherra með að þetta sé eitthvert minna brot í dag eða annars konar dómur. Það sem ég náði að kynna mér var að málin voru misjafnlega sett fram, það er hins vegar alveg rétt.

Ég er þeirrar skoðunar að það eigi að nota þetta tækifæri til að setja okkur ný viðmið. Nú hefur hæstv. forsætisráðherra það í hendi sér hvort hún ætli að segja við þingheim, og þjóðina sem hæstv. forsætisráðherra gjarnan talar til og talaði í umboði fyrir, og setja okkur markmið til framtíðar um hvernig við eigum að axla ábyrgð og hvernig menn ætla að vinna. Ég tel að ef forsætisráðherra ætlar sér ekki að axla ábyrgð á þessu broti sem hún gerði sig seka um samkvæmt úrskurðarorðunum hljóti þeir þingmenn sem hér sitja og verða hugsanlega ráðherrar einhvern tímann að hugsa: Nú, forsætisráðherra 2011, hæstv. forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir, sagði í þingsal 24. mars að þetta væri ekki það stórt brot að hún þyrfti endilega að segja af sér þó að þetta væri dómur.

Þetta snýst um það hvernig við öxlum ábyrgð. Eitt af því sem fram kemur í skýrslu rannsóknarnefndarinnar er einmitt það hvernig menn axla ábyrgð. Það hlýtur að hafa verið mjög freistandi fyrir þá ráðherra sem voru rannsakaðir í rannsóknarskýrslunni og síðan ákærðir vegna landsdóms að vísa bara á eitthvert ferli, vísa á undirmenn, vísa á aðra starfsmenn í ráðuneytinu og eitthvað slíkt. Þeir gerðu það hins vegar ekki, þeir ákváðu að axla ábyrgðina, sögðu að þeir bæru ábyrgð á ráðuneytunum og því sem þar fór fram.

Kannski er ekki saman að jafna um efnistök og innihald, það getur vel verið, en þarna öxluðu menn ábyrgð. Ætlar hæstv. forsætisráðherra að axla ábyrgð? Til upprifjunar sat hæstv. ráðherra í þeirri ríkisstjórn og starfaði með þeim ráðherrum sem sögðust bera ábyrgð á þeim ráðuneytum þá.

Með leyfi frú forseta ætla ég hér að vitna í orð hæstv. forsætisráðherra þegar hún var hér þingmaður:

„Hjá öðrum lýðræðisþjóðum hefði ráðherra sem brýtur svo gróflega lög og reglur verið látinn fjúka. En hér á landi er allt leyfilegt hjá ráðherrum og þeir komast upp með allt.“ — Þetta sagði Jóhanna Sigurðardóttir árið 2004. Og:

„Hver er pólitísk ábyrgð ráðherrans? Er henni fullnægt að mati ráðherra með því að brotaþola verði dæmdar skaðabætur eða á ráðherra að segja af sér?“ — Þetta sagði hæstv. núverandi forsætisráðherra árið 2004.

Þetta er enn eitt klúðrið að mínu viti, frú forseti, um það hvernig ríkjandi stjórnvöld, ráðherrar er sitja í dag, taka á málum eða horfa á vandamál sem koma upp hjá þessari ríkisstjórn. Ég hef ekkert sérstakt við hæstv. forsætisráðherra að sakast í þessu máli. Það var hins vegar kveðinn upp dómur, úrskurður, um að hún hefði brotið lög. Við höfum heyrt hæstv. umhverfisráðherra koma sér undan því að axla ábyrgð á úrskurði sem á hana féll eða dómi, það fer eftir því hvernig við túlkum það. Ég er gríðarlega ósáttur við það. Þar var líka tækifæri til að segja: Við ætlum að taka upp þessi nýju vinnubrögð sem stjórnarliðar og ríkisstjórnin tala um svo fjálglega þegar það hentar. Nú er boltinn kominn til hæstv. forsætisráðherra frá hæstv. umhverfisráðherra til að setja hér ný viðmið og horfa til framtíðar.

Það er nefnilega ekki eingöngu hæstv. forsætisráðherra sem mun í framtíðinni leyfa sér það að vísa til fortíðar um viðmiðin fyrir því hvenær menn axla ábyrgð. Það munu örugglega fleiri nota það tækifæri þegar fram líða stundir.