139. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2011.

úrskurður kærunefndar jafnréttismála, nr. 3/2010, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[12:56]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það sem skiptir mestu máli þegar þetta mál er rætt og skoðað af rósemd og yfirvegun, sem var ekki hér í umræðunni í gær og fram eftir degi, er að draga lærdóm af úrskurðinum og því ferli sem á bak við hann liggur. Hér var staðið faglega að málum frá upphafi til enda. Það er ekki upp á hæstv. forsætisráðherra að klaga í þessu máli með neinum hætti. Hins vegar vekur þetta athygli á ágöllum ferlisins. Þetta kallar á endurskoðun á öllu ferlinu þar sem um er að ræða jafnhæfa einstaklinga, mjög hæfa, sem er sjálfsagt erfitt að raða. Það er fenginn faglegur aðili utan frá til að raða einstaklingunum. Í þessu tilfelli raðast kærandinn í fimmta sæti og það er ákveðið af ráðningarmatsfólki að leggja til að sá sem efstur er sé hæfastur og verði ráðinn. Það var faglega staðið að málinu í hvívetna.

Það var engin leið að víkja því mati frá og meta það út frá einhverjum öðrum kríteríum, að byrja á að meta það að það hallaði á konur í skrifstofustjórahópi, fara síðan í hæfnismatið o.s.frv. Þarna stangast á mjög óþægilega og óheppilega annars vegar hið faglega ráðningarferli og hins vegar staða jafnréttismála í hópi þeirra sem ráða skal inn í. Það er óheppilegt og það er lærdómur sem við eigum að draga af þessu máli í staðinn fyrir að hendast ofan í skotgrafirnar með alls kyns skítkasti og reyna að gera hæstv. ráðherra ótrúverðugan í málinu. Það er ómerkilegur málflutningur en hér er um að ræða alvarlegt mál sem við hljótum öll að vilja draga af pólitískan lærdóm og laga og bæta ráðningarferli af þessu tagi. Hér er um að ræða mjög mikilvægar stöður í okkar stjórnkerfi, það er mjög mikilvægt að bæta enn um í jafnréttismálum þó að ágætlega hafi gengið á síðustu árum, en þarna stangast á mat kærunefndar jafnréttismála annars vegar og utanaðkomandi ráðningarskrifstofu hins vegar.

Það er í engu samræmi við tilefni máls að kalla eftir afsögn ráðherra eða hafa uppi þann málflutning sem hér hefur verið reynt að hafa uppi á fyrstu stigum þessa máls. Það hefði sjálfsagt verið hægt að færa rök fyrir því ef að baki þessu lægju gerræðisleg vinnubrögð þar sem hæstv. ráðherra hefði beitt einhverju pólitísku handafli til að velja fram fyrir faglega röð pólitískan samherja, flokksbróður eða flokkssystur, og taka slíkan einstakling fram fyrir faglega raðaða röð. Þá hefði verið hægt að fara með látum í hæstv. ráðherra. En því fer víðs fjarri að svo hafi verið, heldur þvert á móti var farið eftir faglegu mati. Svo má vel vera að það sé hægt að deila um faglega matið hjá ráðningarskrifstofunni, það getur vel verið.

Við þurfum bara að fara yfir alla þessa ferla. Úrskurðurinn, sem ekki er gert lítið úr með neinum hætti, kallar fyrst og fremst á endurskoðun á ferli sem er greinilega mjög gallað. Það er það sem úrskurðurinn dregur fram fyrst og fremst, að ráðningarferlið stenst ekki ítarlega skoðun þegar jafnréttissjónarmið stangast á við faglegt mat og faglega röðun. Við skulum bera gæfu til að fara yfir málið af yfirvegun og rósemi, draga af því þá lærdóma sem við þurfum að draga, af því að þetta eru mál sem eru alltaf erfið og viðkvæm þegar er verið að ráða inn einstaklinga og stendur ekki upp á nokkurn einasta ráðherra almennt annað en að ráða hæfasta og besta einstaklinginn og fara eftir faglegu mati við þær ráðningar.