139. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2011.

hagvöxtur og kjarasamningar.

[14:29]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér hagvöxt og kjarasamninga. Að mínu mati og margra annarra er staða þjóðarbúsins með þeim hætti í dag að sá hagvöxtur sem við eigum völ á þarf að koma innan frá. Hann þarf að koma frá frumkvæði landsmanna. Hann þarf t.d. ekki að koma, og kemur ekki, frá endalausri bið eftir erlendri fjárfestingu. Bankar og lífeyrissjóðir eru fullir af peningum en 3,5% raunávöxtunarkrafa lífeyrissjóða virkar sem gólf undir alla vexti í landinu og þar með er lánsfé einfaldlega dýrara á Íslandi en það ætti að vera. Þetta gólf þarf að afnema svo fjármunir komist í vinnu. Hér er ekki um að ræða fé án hirðis heldur einfaldlega fé án hlutverks. Það er auðvelt að finna þessu fé hlutverk.

Skuldsett heimili munu ekki komast í gang með núverandi skuldaúrræðum ríkisins og ekki fyrirtæki heldur. Skuldsettur ríkissjóður er kominn yfir þolmörk og hann mun ekki geta greitt niður skuldir nema með frekari skattahækkunum eða niðurskurði sem munu þá vega alvarlega að grunnstoðum samfélagsins.

Það er þörf á róttækri endurskipulagningu á skuldum allra þessara aðila; heimila, fyrirtækja og hins opinbera. Sú endurskipulagning verður að fela í sér stórfelldar afskriftir, þar á meðal á skuldum ríkissjóðs. Þannig og aðeins þannig munu hjól efnahagslífsins á Íslandi fara að snúast á ný.

Erlend fjárfesting er að miklu leyti draumsýn og frasi og mun ekki skila neinu fyrr en eftir mjög langan tíma, ef þá einhverju. Við getum tekið sem dæmi HS Orku og notað það sem víti til varnaðar. Það skilaði 6,8 milljarða kr. hagnaði, þar af fékk Reykjanesbær 50 millj. kr. í leigu fyrir auðlindina, þ.e. 0,8% af hagnaðinum, hagnaði sem fór úr landi til Kanada með viðkomu í skúffu í Svíþjóð. Eigandi fyrirtækisins lánaði því svo 20 milljónir dollara á 8% vöxtum með 2,5% lántökugjaldi á sama tíma og vextir á alþjóðafjármálamörkuðum eru um 1–1,5%. Menn verða að gera aðeins betur en þetta og koma með raunhæfar tölur um erlenda fjárfestingu ef þeir ætla að hún muni skila hér einhverjum hagvexti.

Það er hægt að fara aðrar leiðir. Hér hefur Hreyfingin, þótt við séum fá, lagt fram frumvarp um t.d. löndun afla á innlenda markaði sem mundi sennilega skapa um 800 störf á mjög skömmum tíma með mjög litlum tilkostnaði ef það yrði afgreitt úr sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd. Þannig er hægt að skapa störf og hagvöxt. Hagvöxturinn verður þó fyrst og fremst að koma frá aukinni einkaneyslu sem svo drífur upp fyrirtækin í landinu. Þar skiptir skuldaleiðrétting og kjarabætur mestu máli og langtímakjarasamningar með mjög lágum launahækkunum eru ekki leiðin sem á að fara í dag, enda eru t.d. útflutningsatvinnuvegirnir vel aflögufærir. Heildarkjarasamningar yfir alla línuna eru ekki rétta leiðin í svoleiðis umhverfi.

Afnám verðtryggingar á lánum þarf að gerast strax svo almenningur finni það öryggi sem þarf og það þarf að fylgja fasteignakaupum. Það mundi auka hagvöxt.

Raunhæf athugun á möguleikum þjóðarinnar á upptöku nýs gjaldmiðils er brýn því að það ferli sem Seðlabankinn er með gjaldmiðilinn í um afnám hafta er ávísun á annað hrun. Það er ekki hægt að bíða eftir evru þótt þrá manna sé mikil. Til þess eru einfaldlega of margir þröskuldar fram undan og leiðin að auki mjög löng, a.m.k. 5–8 ár ef af verður. Í því samhengi leyfi ég mér að benda á fund Hreyfingarinnar í kvöld um valkosti í gjaldmiðilsmálum. Það gæti orðið mjög upplýsandi fyrir þingheim að mæta á þann fund. Þar mun margt fært fólk velta upp hugmyndum um upptöku annarra gjaldmiðla.

Að auki langar mig að nefna faglega stýringu skulda ríkissjóðs með stofnun Lánasýslu ríkisins sem sjálfstæðrar stofnunar, eins og OECD mælir með, en það er nokkuð sem mundi auka tiltrú erlendis á ríkissjóði til mikilla muna. Þau skuggavinnubrögð sem viðhöfð eru í fjármálaráðuneytinu um aukningar á ábyrgðum ríkisins ef áframhald verður á þeim munu ekki skila neinu nema meira vantrausti á alþjóðavettvangi. Skuldastýring ríkissjóðs samkvæmt faglegum nótum þar sem best gerist í heiminum er grundvallaratriði til þess að Ísland njóti á ný trausts á alþjóðavettvangi. Icesave í því samhengi (Forseti hringir.) skiptir engu máli.