139. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2011.

hagvöxtur og kjarasamningar.

[14:41]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hér erum við að ræða hagvöxt og kjarasamninga. Ég verð að segja alveg eins og er að ég hélt að við værum komin til að tala um framtíðina en ekki að vera föst í fortíðinni, eins og hæstv. forsætisráðherra getur einungis talað um hér. Hvar er framtíðarsýnin? Hvar eru tillögurnar? Hvernig ætlar ríkisstjórnin að koma þessu landi áfram inn í framtíðina?

Nú hafa rúm tvö ár farið til spillis hjá ríkisstjórninni, eiginlega fyrst og fremst vegna þess að ekki er hægt að hugsa málin upp á nýtt. Það er ekki hægt að hugsa út fyrir kassann. Það á að endurreisa allt það sem var hér fyrir hrun í nákvæmlega sama formi. Við skulum átta okkur á því að það vantar á milli 22–25 þúsund störf á almenna vinnumarkaðinn frá hruni, tæplega 500 starfsmönnum á opinbera markaðnum hefur verið sagt upp störfum. Það vita allir að með svo fámennu vinnuafli á almenna vinnumarkaðnum er ekki hægt að halda því bákni úti miklu lengur. Ríkisstjórnin lítur algjörlega fram hjá þessu og býr til nýjar stöður og ný störf eins og enginn sé morgundagurinn hjá hinu opinbera. Jú, þeir eru nefnilega komnir í ríkisstjórn, vinstri flokkarnir, og þeir kunna að kratavæða þjóðfélagið. Við horfum fram á þessar staðreyndir.

Því hefði ég viljað að komið hefði fram í umræðunni hvernig á að skapa svigrúm fyrir nýjar atvinnugreinar. Hvernig er hægt að skapa svigrúm fyrir gjaldeyrisskapandi atvinnugreinar? Hvers vegna er ekki farið af stað með t.d. skattaívilnanir fyrir loðdýrarækt? Loðdýrabændur skila til þjóðarbúsins 1 milljarði á ári. Hvers vegna fá loðdýrabændur ekki lán? Loðdýrabændur fá ekki íslensk lán vegna þess að peningarnir eru fastir inni í bönkunum. Af hverju er t.d. ekki lagt í þá vegferð að það verði jafnvel lán með ríkisábyrgð úr því að ríkisstjórnin getur ekki hreyft sig öðruvísi en að spandera 15–20 milljörðum út í loftið í hverri viku með fullri ríkisábyrgð og leggja inn í gjaldþrota fyrirtæki? Af hverju er ekki verið að selja orkuna til gróðurhúsaræktunar til útflutnings og skapa hér miklar gjaldeyristekjur? Það þarf nefnilega gjaldeyri til að standa undir öllum þeim lánum sem ríkisstjórnin (Gripið fram í.) hefur verið að taka. Það þarf nefnilega gjaldeyri til að standa í skilum, hæstv. (Gripið fram í.) utanríkisráðherra, sem vill eingöngu fara með okkur í Evrópusambandið. Það er ekki lausn. Það er sú lausn sem Samfylkingin leggur til og lagði sem mark sitt á síðustu kosningabaráttuna, að hér yrði allt blómum skrýtt og sól og blíða allt árið um kring ef við (Gripið fram í.) gengjum inn í Evrópusambandið. Hugsið ykkur framtíðarsýnina hjá þessari ríkisstjórn, að ganga leiðina til Brussel og þá muni hér skapast hagvöxtur á ný.

Þetta er það sem ég ætlaði að segja. Núverandi ríkisstjórn er verklaus. Hún er raunverulega (Forseti hringir.) búin að fara með þrjú ár í súginn. Hér breytist ekki neitt. Við þurfum nýja ríkisstjórn.