139. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2011.

hagvöxtur og kjarasamningar.

[14:48]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U):

Herra forseti. Atvinnuleysi mælist hér á landi meira en annars staðar á Norðurlöndunum þrátt fyrir mikla kaupmáttarrýrnun og brottflutning eftir hrun. Hagvaxtarspár fyrir þetta ár eru því miður mun verri en efnahagsáætlun AGS gerði ráð fyrir og litlar líkur á launahækkunum og fjölgun starfa. Hávaxtastefna og of hraður niðurskurður hefur ýtt undir eftirspurnarkreppu í kjölfar banka- og gjaldeyriskreppunnar. Nothæfar lausnir á efnahagsvanda okkar koma ekki að utan. Efnahagsstefna AGS hefur dýpkað kreppuna hér á landi og upptaka evru er ekki raunhæfur möguleiki. Full innstæðutrygging og verðtryggingin hefur skapað ójafnvægi milli virðis peningalegra eigna og innlendra skuldbindinga eftir hrun. Ef þetta ójafnvægi verður ekki leiðrétt munum við búa við stöðnun og atvinnuleysi á næstu árum.

Erfitt er að ná fram almennri leiðréttingu skuldbindinga þar sem búið er að einkavæða stóran hluta bankakerfisins. Fyrirtæki og heimili geta hins vegar ekki staðið undir skuldabyrði sem mun þyngjast umtalsvert um leið og afnám hafta hefst. Því þarf að leita nýrra leiða.

Upptaka nýs gjaldmiðils er aðgerð sem þarf að skoða fordómalaust. Upptaka nýs gjaldmiðils leiðréttir ekki aðeins ójafnvægið í virði eigna og innlendra skuldbindinga, heldur gerir okkur kleift að afnema höftin hraðar en ella. Ójafnvægið verður leiðrétt með því að hafa mismunandi gengi á nýja gjaldmiðlinum.

Dæmi um mismunandi skiptigengi er þegar launum og peningalegum eignum undir 10 milljónum er skipt á genginu 1:1. Eignum umfram t.d. 10 milljónir og öðrum skuldbindingum er síðan skipt á genginu 1:1,5, þ.e. á lakara gengi. Nýr íslenskur gjaldmiðill sendir skýr skilaboð til þeirra sem tengja enn áhættu við krónuna og segir erlendum fjárfestum að búið sé að taka á hagstjórnaróstjórninni sem leiddi til hrunsins. Trúverðugleiki hagstjórnarinnar er þó háður því að við höfnum sem allra fyrst kreppudýpkandi efnahagsstefnu AGS.