139. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2011.

hagvöxtur og kjarasamningar.

[14:51]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Við efnahagshrunið 2008 voru allir sammála um að það forskot sem Ísland hefur umfram margar aðrar þjóðir til að ná vopnum sínum væri til staðar. Náttúrulegar auðlindir landsins gæfu tækifæri til öflugrar viðreisnar. Galdurinn var bara að nýta þessi tækifæri og auka þar með hagvöxt og verðmætasköpun.

Afleiðingar af aðgerða- og stefnuleysi ríkisstjórnarinnar eru hverjum manni augljósar, líka mörgum þingmönnum ríkisstjórnarflokkanna. Það er svo komið að lengur verður ekki við unað. Þjóðfélagið stendur einfaldlega ekki undir frekari töfum og aðgerðaleysi. Hér verður að snúa við blaði. Þjóðfélagið gerir þá eðlilegu kröfu til okkar að þessi mál séu sett í forgang og annað látið bíða. Tækifærin eru til staðar. Með samstöðu er hægt að skapa hér þúsundir starfa á nokkrum mánuðum.

Sátt í sjávarútvegi og aukning aflaheimilda er eitt af lykilatriðunum. Sjaldan eða aldrei hafa aðstæður í sjávarútvegi verið svo hagstæðar sem nú. Það skapar veruleg tækifæri til aukinna fjárfestinga í greininni eða á að gera það. Ósamkomulag ríkisstjórnarflokkanna hefur kostað mikið og óþarft verkefnaleysi hjá flestum fyrirtækjum sem þjónusta þennan mikilvæga atvinnuveg. Með því að eyða þeirri óvissu, heita því að skipa málum til framtíðar með þeim hætti sem byggt er á í niðurstöðu sáttanefndar og tilkynna um aukið aflamark á yfirstandandi fiskveiðiári má á mjög skömmum tíma skapa mikil og aukin umsvif í greininni.

Í orkumálum hefur hvorki gengið né rekið. Fyrirslátturinn er vandamál með fjármögnun. Hann er ekki trúverðugur. Á þessum vettvangi þarf líka samstöðu og vilja til að stíga næstu skref, ákvörðun um virkjanir í neðri hluta Þjórsár og raunverulegan áhuga til að ljúka verkefnum á Suðurnesjum og í Þingeyjarsýslu.

Í nóvember lofaði ríkisstjórnin útboðum fyrir lok febrúar fyrir um 6 milljarða í vegaframkvæmdum. Allir fögnuðu, en ekkert hefur bólað á efndum og algjört vonleysi er meðal fyrirtækja í greininni. Deilan stendur ekki um fjármögnun verkefna, þau skulu fjármögnuð með útgáfu ríkisskuldabréfa. Deilan stendur um framtíðarskipulag skattlagningar vegna vegnotkunar. Það er nægur tími til að taka þá umræðu.

Virðulegi forseti. Ég hef farið hér yfir nokkur atriði sem mætti hrinda í framkvæmd á mjög stuttum tíma ef vilji og samstaða væri fyrir hendi. Þúsundir starfa mundu skapast í landinu með tilheyrandi verðmætasköpun og hagvexti. Það er ekkert mikilvægara fyrir heimili landsins en að efla atvinnustig og auka verðmætasköpun. Tækifærin eru fyrir hendi. Við erum ekki að nýta þau og því stefnir eins og raun ber vitni.

Innanmein ríkisstjórnarinnar er að verða þjóðinni dýrkeypt og ábyrgð þeirra þingmanna sem hana styðja er mikil þegar þeir láta þessa vitleysu viðgangast. Skýrasta dæmið um vaxandi kreppu er sá mikli samdráttur sem er hjá verslunar- og þjónustufyrirtækjum á þessu ári og þó var ekki úr háum söðli að detta frá sama tíma á síðasta ári.

Virðulegi forseti. Það er mál að linni. Við verðum að bretta upp ermar, standa undir þeirri ábyrgð hér á Alþingi sem okkur er falin og fara að blása fyrirtækjum og almenningi von í brjóst.