139. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2011.

hagvöxtur og kjarasamningar.

[14:58]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Manni fallast eiginlega hendur að hlusta á þetta endalausa rugl um Icesave. Það er sama hvað kemur í ljós, það er sama hversu oft menn hafa gjörsamlega rangt fyrir sér, eru með algjörlega þveröfuga túlkun við raunveruleikann eins og kemur á daginn, það er bara haldið áfram með sömu gömlu plötuna. Það er líka áhyggjuefni vegna þess að fyrir vikið eru menn ekki að ræða þau mál sem þyrfti að ræða, hina raunverulegu rót vandans. Vandinn er töluverður þótt ég sé reyndar sammála hæstv. fjármálaráðherra um að tækifærin séu líka gríðarlega mikil. Þau tækifæri er hins vegar ekki verið að nýta, það er staðið í vegi fyrir þeim. Tækifærin eru reyndar svo mikil að fá lönd á Vesturlöndum eru í jafngóðri stöðu og Ísland ef menn hefðu vilja til þess að grípa tækifærið. Þess í stað höfum við horft upp á þveröfuga nálgun með það hvernig á að takast á við kreppu. Menn hafa ekkert lært af reynslunni, ekki bara reynslu síðustu ára á Íslandi heldur síðustu áratuga í því hvernig menn takast á við kreppuástand. Afleiðingin er sú að í flestum löndum í kringum okkur hefur orðið sú uppsveifla sem oft fylgir nánast óhjákvæmilega í kjölfar mikillar niðursveiflu. Hér hefur hins vegar tekist með aðgerðum og aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar að viðhalda stöðnuninni. Það hefur tekist að koma í veg fyrir að sú uppsveifla sem oft fylgir kreppunni eigi sér stað þrátt fyrir að aðstæður hér hafi að mjög mörgu leyti verið miklu betri en víðast hvar annars staðar eins og ég nefndi.

Framleiðslugetan er til staðar hér. Það er nóg til af hæfu vinnuafli og samkeppnisstaða landsins er ákaflega góð, m.a. vegna þess hversu lágt gjaldmiðillinn er skráður. En þá er með lagasetningu og pólitískum óstöðugleika nánast lokað á allar fjárfestingarglufur og stöðugt send út þau skilaboð að menn eigi að halda sig burtu, menn eigi ekki að koma hingað með fjármagn og Íslendingar eigi ekki að fjárfesta í landinu. Það er nefnilega nóg til af fjármagni í landinu. (Gripið fram í.) Það er ekki verið að nota það heldur þannig að sú mynd sem dregin er upp af því að þetta snúist allt um að fá meiri lán frá útlöndum er röng, vandi okkar er fyrst og fremst skuldir en það á að leysa hann með enn þá meiri lántökum og enn þá meiri skuldsetningu ríkisins. Nálgunin er öll sú sama og hjá bönkunum fyrir hrunið. Þar er stóra kaldhæðnin við þessa hreinu vinstri stjórn að hún nálgast efnahagsvandann núna annars vegar með stöðnun í atvinnumálum, með því að koma í veg fyrir uppbyggingu þar, og hins vegar er í efnahagsmálunum, við stjórn ríkisfjármálanna, farin nákvæmlega sama leið og bankarnir reyndu þegar þeir voru að komast í þrot. Þá eru tekin meiri lán í von um að aukin lántaka yki veltuna og ef veltan ykist nógu mikið yrðu skuldirnar ekki vandamál. Það er sem sagt orðið löngu ljóst að menn munu ekki læra af reynslunni hvað þetta varðar (Forseti hringir.) og löngu orðið ljóst að það þarf að skipta um ríkisstjórn.