139. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2011.

þingsköp Alþingis.

596. mál
[15:12]
Horfa

Flm. (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um þingsköp Alþingis. Frumvarpið flytja forseti og formenn allra þingflokka. Það hefur verið í undirbúningi frá því í september 2009. Frumvarpið var unnið í nánu samstarfi við þingflokkana. Fulltrúar þeirra, og nú síðast formenn þingflokkanna, héldu fundi um málið í vetur. Er frumvarpið, eins og það er lagt fram núna, afrakstur þessa starfs, samstarfs þingflokkanna um umbætur á störfum Alþingis. Ég þakka formönnum þingflokkanna fyrir mjög gott og ánægjulegt samstarf um þetta frumvarp og tel það sérstakt gleðiefni fyrir Alþingi að breið samstaða hafi skapast um meginefni þessa máls.

Vissulega hafa verið skiptar skoðanir innan þingflokkanna um einstök atriði í svo fjölþættu mál og þingsköp Alþingis eru, og enn fremur í hópi formanna þingflokka, svo að öll höfum við fyrirvara um breytingar, ýmist á því sem hér er lagt til eða um önnur atriði sem ekki er tekið á í þessu frumvarpi. Við væntum þess að sú nefnd sem fær málið vinni frekar að einstökum atriðum. Er þar aðallega um að ræða skiptingu málefna milli nefndanna, einkum í hvaða nefnd skattamál eigi að vera og hvar auðlindamál. Sömuleiðis hafa nokkur önnur atriði verið rædd á fundum forseta og formanna þingflokkanna sem ekki hafa verið tekin upp í frumvarpið. Eru það t.d. dagskrárliðirnir „um störf þingsins“ og „óundirbúinn fyrirspurnatími“. Samstaða er um að einnig þurfi að gera breytingar á þeim liðum svo umræður og fyrirspurnir verði markvissari.

Nokkur önnur atriði þingskapanna hafa enn fremur verið til umræðu við undirbúning málsins, svo og önnur nýmæli, en niðurstaða forseta og formanna þingflokka er sú að þetta skref verði stigið að þessu sinni en haldið verði áfram að þróa starfshætti Alþingis og þingsköp þess á komandi árum þannig að efla megi meginhlutverk þess, lagasetninguna og eftirlitshlutverkið.

Ég vona að málið fái góða yfirferð í nefnd og að okkur auðnist að ljúka málinu áður en hefðbundin þingfrestun fer fram í sumar.

Meginefni frumvarpsins er breytingar á nefndaskipuninni, skýrari ákvæði um eftirlitshlutverk Alþingis og um meðferð trúnaðarupplýsinga í nefndum. Líta má á frumvarpið sem viðbrögð Alþingis við tillögum nefndar sem sett var á laggirnar til að athuga og gera tillögur um eftirlitshlutverk Alþingis gagnvart framkvæmdarvaldinu. Forsætisnefnd fól nefndinni vorið 2008 að fara yfir gildandi lagareglur um eftirlit þingsins með framkvæmdarvaldinu og leggja mat á hvort breytinga væri þörf. Í nefndinni áttu sæti Bryndís Hlöðversdóttir, þá aðstoðarrektor, formaður vinnuhópsins, Andri Árnason hæstaréttarlögmaður og Ragnhildur Helgadóttir prófessor. Með nefndinni starfaði Ásmundur Helgason, aðallögfræðingur Alþingis.

Nefndin skilaði viðamikilli skýrslu um eftirlit Alþingis með framkvæmdarvaldinu. Hún var rædd ítarlega á fundi forsætisnefndar í september 2009. Í framhaldinu fól ég starfsmönnum þingsins að gera fyrstu drög að breytingum á þingsköpum í samræmi við tillögur þessa vinnuhóps. Frumvarpsdrögin voru til meðferðar í forsætisnefnd þingsins, en ekki vannst tími til að ræða þau þar nægilega vel til að nefndin gæti flutt málið. Það var því úr að ég, sem forseti Alþingis, flytti frumvarpið eins og það lá fyrir til að koma þeirri vinnu sem fram hafði farið á framfæri við þingmenn og almenning. Var það frumvarp flutt í júní 2010 og hafði að meginefni breytingar á nefndaskipan og eftirlitstörf þingsins.

Vinna við breytingar á þingsköpunum hélt áfram á sumarfundi forsætisnefndar í ágúst 2010. Var þar farið yfir frumvarpið svo og önnur frumvörp sem komið höfðu fram um breytingar á þingsköpum. Er þing kom saman að nýju í fyrrahaust var svo enn tekið til við frumvarpsvinnuna. Starfið við þingskapabreytingar fékk nýja og sérstaka þýðingu eftir að Alþingi samþykkti samhljóða á fundi 28. september 2010 að breytingar á þingsköpum Alþingis væru hluti af víðtækum breytingum á stjórnkerfinu í kjölfar efnahagsáfallanna við fall bankanna í október 2008.

Miða þessar breytingar sem hér liggja fyrir að því að styrkja störf nefndanna og þar með faglega umfjöllun Alþingis um þingmál, svo og að efla eftirlitshlutverk þess og styrkja stöðu þess gagnvart framkvæmdarvaldinu. Eru í frumvarpinu mikilvæg ákvæði um upplýsingarétt þingmanna, upplýsingaskyldu ráðherra og meðferð trúnaðarmála í nefndum þingsins. Frumvarpið felur í sér róttæka breytingu á nefndakerfi þingsins. Er gert ráð fyrir því að nefndum verði fækkað verulega og að ekki verði bein samsvörun milli ráðuneyta Stjórnarráðsins og málefnaskiptingar nefndanna, heldur ræður álag í nefndastarfi meira um verkefnaskipulag þingsins.

Enn fremur eru í frumvarpinu tillögur sem reynsla undanfarinna ára hefur sýnt að hagkvæmt þyki að gera til að laga starfshætti þingsins. Loks eru nokkrar breytingar sem nauðsynlegar eru til samræmis við breytingar á nefndakerfinu og önnur atriði í frumvarpinu.

Í skýrslu þingmannanefndarinnar sem fjallaði um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis er nánari grein gerð fyrir tillögum sem samþykktar voru samhljóða, þar á meðal um að endurskoða skuli þingsköp Alþingis. Í því sambandi er í skýrslu nefndarinnar bent á að til þess að bregðast við gagnrýni á störf og starfshætti Alþingis þurfi að auka sjálfstæði þingsins gagnvart framkvæmdarvaldinu, leggja meiri áherslu á eftirlitshlutverk þingsins og auka fagmennsku við undirbúning löggjafar. Í tillögum nefndarinnar kemur m.a. fram:

1. Að alþingismenn setji sér siðareglur.

2. Að styrkja beri eftirlitshlutverk þingsins, rétt þingmanna til upplýsinga, aðgengi að faglegri ráðgjöf og stöðu stjórnarandstöðunnar á Alþingi sem gegnir þar mikilvægu aðhaldshlutverki.

3. Að sett verði almenn lög um rannsóknarnefndir. Við því hefur verið brugðist með frumvarpi þess efnis sem nú er til lokameðferðar hjá allsherjarnefnd.

4. Að nefndaskipan og störf fastanefnda Alþingis verði endurskoðuð með það að markmiði að gera þær skilvirkari. Í því sambandi taki nefndaskipan þingsins mið af þörfum þingsins en ekki skipulagi Stjórnarráðsins. Þá verði reglur um opna nefndafundi færðar í þingsköp.

5. Að endurskoðað verði það verklag sem tíðkast hefur við framlagningu stjórnarfrumvarpa með það að markmiði að auka sjálfstæði þingsins gagnvart framkvæmdarvaldinu en í því sambandi er mikilvægt að stjórnarfrumvörp séu lögð fram með góðum fyrirvara.

6. Að settar verði skýrar reglur um innleiðingu EES-gerða sem tryggi m.a. góð vinnubrögð og vandaðar þýðingar á EES-gerðum. Nefndin leggur sérstaka áherslu á það.

Loks segir í skýrslu þingmannanefndarinnar, með leyfi forseta:

„Þingmannanefndin leggur áherslu á að niðurstöður þingmannanefndarinnar um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og skýrsla vinnuhóps um eftirlitshlutverk og starfshætti Alþingis frá haustinu 2009 verði lagðar til grundvallar við endurskoðun á lögum um þingsköp Alþingis.“

Við endurskoðun á þingsköpum Alþingis hafa framangreind atriði verið höfð að leiðarljósi. Meginmarkmið frumvarpsins miðar þannig að því að því að gera þinginu betur kleift að annast þau verkefni sem því eru falin samkvæmt stjórnarskrá, einkum við að veita stjórnvöldum aðhald og hafa eftirlit með starfsháttum framkvæmdarvaldsins. Nánar tiltekið er lagt til:

1. Að settar verði skýrari reglur um rétt Alþingis, einkum þingnefnda, til upplýsinga og gagna frá stjórnsýslunni.

2. Að lögð verði skylda á ráðherra að tryggja að Alþingi hafi þær upplýsingar sem hafa verulega þýðingu fyrir þau mál sem eru til meðferðar á Alþingi.

3. Að Alþingi verði gert kleift að taka við trúnaðarupplýsingum sem hafa þýðingu fyrir störf þingsins.

4. Að nefndaskipulag Alþingis verði endurskipulagt og einni tiltekinni nefnd falið að fara með mál er lúta að eftirliti með handhöfum framkvæmdarvalds, nefndum verði fækkað úr tólf í sjö og nefndasætum þar með úr 110 í 63 og formennsku þeirra skipt milli þingflokka eftir þingstyrk. Er þar um verulega breytingu að ræða frá því sem nú er.

5. Að Alþingi verði auðveldað að fylgja eftir þingsályktunum með því að skylda ríkisstjórnina til að leggja árlega fram skýrslu um framkvæmd þeirra.

6. Að staða minni hlutans á Alþingi verði styrkt, einkum með ríkari upplýsingarétti þingmanna og upplýsingaskyldu ráðherra sem miðar að meira jafnræði þingmanna í aðgengi að upplýsingum, svo og rétti allra þingflokka til formennsku í þingnefndum. Réttur minni hluta miðast nú við fjórðung þingmanna í stað þriðjungs áður.

7. Að sköpuð verði festa um þinglega meðferð EES-mála auk þess sem þinginu verði gert kleift að fylgjast betur með undirbúningi EES-mála á fyrri stigum.

8. Að ýmis ákvæði þingskapa verði löguð að þeirri þróun sem orðið hefur síðustu missirin er varðar störf þingsins.

Fyrstu sex atriðin má rekja beint til ábendinga í skýrslu vinnuhópsins um þingeftirlit sem áður er minnst á. Við útfærslu á ákvæðum frumvarpsins sem að þessu lúta hefur verið höfð hliðsjón af reglum annars staðar á Norðurlöndum. Enn fremur hefur verið tekið tillit til ráðgefandi tilmæla Evrópuráðsins nr. 1601/2008 um réttindi og ábyrgð stjórnarandstöðunnar í störfum þinga í lýðræðisríkjum.

Sjöunda atriðið, um EES-málin, byggist á tillögum í skýrslu utanríkismálanefndar til forsætisnefndar frá 8. október 2008 um fyrirkomulag á þinglegri meðferð EES-mála. Í skýrslunni komu fram ýmsar tillögur um ábendingar á reglum sem forsætisnefnd setti árið 1994 um meðferð EES-mála á mótunarstigi, en þeim hefur ekki verið fylgt sem skyldi.

Að fenginni þessari skýrslu voru samin drög að nýjum reglum um þinglega meðferð EES-mála þar sem ítarlega er fjallað um meðhöndlun þessara mála og samskipti við Stjórnarráðið allt frá því að tillögur eru á mótunarstigi innan Evrópusambandsins þar til lagafrumvörp eru lögð fram á þingi sem er ætlað að innleiða reglur sem byggjast á ESB-gerðum.

Forsætisnefnd hefur nú endanlega afgreitt þessar reglur og liggja þær fyrir á vef þingsins. Í ljósi þess að reglurnar leggja ákveðnar kvaðir á Stjórnarráðið þykir rétt að þeim sé veitt lagastoð í þingsköpum Alþingis.

Áttunda atriðið, þ.e. ýmsar minni háttar breytingar, byggist á þeirri reynslu sem fengist hefur í störfum þingsins síðan endurskoðun þingskapa fór fram árið 2007 og samkomulag hefur orðið um að kalli á breytingar. Nánar er vikið að þessum breytingum í athugasemdum við einstakar greinar frumvarpsins.

Ég legg til, virðulegi forseti, að mál þetta verði að lokinni þessari umræðu látið ganga til sérnefndar. Er það mest í samræmi við þá hefð sem verið hefur um viðamiklar breytingar á þingsköpum. Er mikilvægt að í þá níu manna nefnd, þingskapanefnd, veljist fulltrúar allra þingflokka hér á Alþingi. Fastanefndirnar eru allar önnum kafnar við sín störf en sérnefndin ætti að geta einbeitt sér að þessu mikilvæga máli sem miklu varðar um starfshætti hér á Alþingi.

Ég vil í lokin þakka öllum þeim sem hafa komið að því að búa þetta mál í þann búning sem hér liggur fyrir og hafa lagt sig fram um að þetta mikilvæga mál nái fram að ganga.