139. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2011.

þingsköp Alþingis.

596. mál
[16:01]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna sem ég taldi mjög athyglisverða. Ég er sammála hv. þingmanni að þessi breyting varðandi formennsku og varaformennsku í nefndum og þessi talsmannahugmynd sé nauðsynleg og góð. En ég tel að hún verði ekki ein og sér, því miður, sú mikla breyting sem hv. þingmaður talar um vegna þess að það sem fyrst og fremst þarf að breyta er hugarfar og það hvernig við í þinginu nálgumst verkefni okkar.

Þetta er auðvitað mikilvægt skref en ég tel að okkur beri að ræða opinskátt um þetta hugarfar og það ástand sem alla vega ég upplifi í þinginu, sem felst í rauninni í því að vinna leikinn sama hvað það kostar, það er ekki málefnið endilega sem skiptir öllu máli heldur það að vinna. Það gerir það að verkum að mínu mati að við höfum ekki náð þeim árangri sem íslenska þjóðin krafðist af okkur sem hér höfum starfað frá því í síðustu alþingiskosningum. Það er mjög alvarlegt og okkur hefur mistekist það. Við höfum reyndar fjallað um þetta og fjölluðum um það þegar við vorum að fara yfir skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Við fórum í mikla vinnu með þingmannanefndinni og skiluðum skýrslu og þingsályktunartillögu sem var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum en að mínu mati gleymdist sú vinna. Henni hefur einfaldlega ekki verið fylgt eftir vegna þess að það fylgdi ekki breytt hugarfar. Spurningin sem eftir stendur er: Hvernig breytum við hugarfari? Þótt þetta sé kannski svolítið neikvæð ræða hjá mér þá er ég alveg bjartsýn um að það sé hægt ef menn horfa gagnrýnum augum á verk sín, hvort sem við erum í stjórn eða stjórnarandstöðu, og einbeitum okkur að því að breyta vinnubrögðum okkar.