139. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2011.

þingsköp Alþingis.

596. mál
[16:03]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ef við hefðum svarið við því hvernig við nákvæmlega breytum hugarfari þá væri fá vandamál að leysa. En það er rétt hjá hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur að það er ekki bara formið sem skiptir máli. Formið skiptir máli, sérstaklega í lýðræðisstörfum skiptir það miklu máli, en innihaldið gerir það líka. Ég get alveg tekið undir það að menn verða að skilja og skynja hvernig verkefnin breytast. Það hefur verið rætt í þingflokki mínum að í rauninni þurfi að setja þingmenn á endurmenntunarnámskeið ef okkur tekst að gera þetta frumvarp að lögum til að allir fái sömu sýn á verkefnið og það verði skýrt hver eru fundarsköp í nefndum. Það hefur nokkuð verið talað um, t.d. hvernig nefndarfundum er stjórnað, hvernig verkefnum er skipt á milli og annað slíkt. Ég held að það sé hluti af þessu verkefni að gera það með þeim hætti. Ég tel okkur fylgja viljanum sem við lýstum sjálf í þingsályktunartillögunni sem við samþykktum frá þingmannanefndinni. Auðvitað er margt annað sem á eftir að gera en þetta er eitt af þeim atriðum sem snýr beint að okkur sem þingmönnum og við eigum náttúrlega að hafa það í huga þegar við fjöllum um þetta frumvarp og vonandi styðjum við það líka öll sem eitt.