139. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2011.

þingsköp Alþingis.

596. mál
[16:20]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Stiklað var á því helsta sem ég hefði viljað fá fram frá hv. þingmanni.

Mig langar að spyrja aðeins betur út í þetta varðandi fjölskylduvænan vinnustað af því að hv. þingmaður er þingreyndur maður og hefur bæði starfað í stjórn og stjórnarandstöðu. Á Íslandi þykir svolítið töff að vera lengi í vinnunni og vinna fram á nótt og vera svolítill jaxl. Það er hugarfar sem fylgir okkur og verður kannski erfitt að breyta. Munu hin góðu orð sem hv. þingmaður lét falla um að það þurfi að fara yfir þetta og breyta þessu breytast þegar hann, ef svo fer, verður aftur kominn í stjórnarandstöðu? Sveiflast viljinn í þinginu eftir því hvorum megin menn eru? Ég er tiltölulega ný á þingi og hef ekki upplifað að vera hinum megin við borðið, í stjórn. Það er spurning hvort ákall um breytt hugarfar varðandi þetta muni ná í gegn eða hvort það sveiflist eftir því hvorum megin línunnar maður er. Ég tel að við verðum að fara yfir þessi atriði nú þegar við skoðum þingsköpin.

Mér sýnist átökin um einstök mál þegar verið er að reyna að ná samningum milli stjórnar og stjórnarandstöðu að mestu leyti fara fram í þessum ræðustól. Á sumum öðrum þjóðþingum, eins og t.d. því skoska að því er mér skilst, fara átökin fram í nefndum. Við hrósum okkur nefnilega svo oft þegar verið er að skamma okkur fyrir að vera dónalegt hvert við annað og leiðinleg í ræðustól og segjum: Ja, það fer svo góð og friðsamleg vinna fram í nefndunum. Kannski ætti þetta að vera akkúrat öfugt. Kannski ættum við að takast meira á í nefndunum og taka slaginn þar. Þar er hægt að fara í ítarlegri umræður og reyna að ná lendingu varðandi stærstu átakamálin áður en komið er inn í þennan sal. Ég tel að vert sé að ræða það þegar farið er yfir þetta frumvarp.