139. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2011.

þingsköp Alþingis.

596. mál
[16:25]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að fagna því að þetta frumvarp sé fram komið og þakka forseta Alþingis, Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur, fyrir ágæta framsögu. Ástæðan fyrir því að þetta er fram komið er annars vegar sú að á hverjum tíma þarf að vera til stöðugrar endurskoðunar það form og sú umgjörð sem við setjum í kringum pólitíska umræðu og afgreiðslu hjá löggjafanum en meginástæðan er hins vegar hrunið og rannsóknarskýrsla Alþingis og þingmannaskýrslan sem var unnin í kjölfarið og þeir punktar sem þar voru settir fram, ræddir og síðan samþykktir hérna eins og fram hefur komið í ræðum þingmanna og oft áður 63:0, þ.e. allir stóðu saman að þeim breytingum.

Ef ég fæ aðeins að vitna í þingmannaskýrsluna, með leyfi forseta:

„Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis er sett fram gagnrýni á störf og starfshætti Alþingis sem mikilvægt er að bregðast við. Meginniðurstöður þingmannanefndarinnar varðandi Alþingi eru þær að auka þurfi sjálfstæði þingsins gagnvart framkvæmdarvaldinu, leggja beri meiri áherslu á eftirlitshlutverk þingsins og auka fagmennsku og undirbúning löggjafar.“

Þarna tel ég að búið sé að nefna þá þrjá þætti sem eru hvað mikilvægastir. Við höfðum rætt hverju sé mest þörf á að breyta í forminu og þeirri umgjörð sem við setjum um löggjöf og umræðu hér í þinginu, þ.e. sjálfstæði þingsins, eftirlitshlutverki þess og að vanda undirbúning löggjafarinnar betur en raun ber vitni. Við höfum því miður fjölmörg dæmi um hið gagnstæða frá síðustu vikum úr þinginu.

Svo ég vitni áfram í þingmannaskýrsluna, með leyfi forseta:

„Þingmannanefndin telur brýnt að Alþingi taki starfshætti sína til endurskoðunar, verji og styrki sjálfstæði sitt og marki skýr skil á milli löggjafarvaldsins og framkvæmdarvaldsins. Alþingi á ekki að vera verkfæri í höndum framkvæmdarvalds og oddvitaræðis.“

Það er eins með þetta og hitt. Við höfum fjölmörg dæmi um hið gagnstæða í störfum okkar frá liðnum vikum og mánuðum. Ég held að umræðan sem fór fram áðan milli nokkurra hv. þingmanna sé áhugaverð, um að það sé ekki nóg að breyta forminu, það þurfi líka að breyta hugsun þingmanna og aðkomu þeirra að þessari vinnu og hvernig þeir nálgast viðfangsefnið. Í frumvarpinu sjálfu er sett fram tilraun til að breyta forminu til að styrkja sjálfstæði þingsins fyrst og fremst og er í formi þess að nefndaskipaninni verði breytt. Það kom einmitt fram hjá þingmannanefndinni að hún teldi að endurskoða þyrfti nefndaskipan og störf fastanefnda með því markmiði að gera þau skilvirkari þannig að þau tækju mið af þörfum þingsins, þ.e. löggjafarvaldsins, en ekki skipulagi Stjórnarráðsins. Hér er gerð tilraun en það er, eins og komið hefur fram í umræðunni nú þegar og á vegum formanna þingflokka sem ég tók þátt í fyrir nokkru, umdeilanlegt með hvaða hætti verður skipt upp í nefndir. Það verður alltaf einhver málaflokkur sem fáir eru sammála um að eigi heima þar sem hann er settur og margir munu telja að hann eigi að vera annars staðar.

Ég vil taka undir þau sjónarmið sem hér hafa verið rædd um að það geti verið að mismunandi vinnuálag eða vægi sé á milli nefnda og að velta þurfi fyrir sér hvort hugsanlega atvinnuvega- og viðskiptanefndin eða fjárlaganefndin eigi að skiptast í þrjár nefndir og úr verði efnahagsnefnd, skattanefnd og viðskiptanefnd, þ.e. að skattamálin fari þá úr fjárlaganefnd og viðskiptamálin úr atvinnuveganefnd til að gera þau álíka efnismikil. Það mun auðvitað koma niður á þeirri hugmynd að það verði sjö nefndir. En kannski verður ekki stór ágreiningur um hvort það sé lykilatriði.

Annar þáttur sem snertir þessar nefndir er hvort formenn og varaformenn séu kosnir eftir þingstyrk hvers flokks, að það verði ekki þannig að framkvæmdarvaldið eða meiri hlutinn, ef það er meirihlutastjórn, ráði öllum formönnum og varaformönnum í nefndunum heldur starfi þingið sjálfstætt að málaflokkum. Þarna mun reyna hvað mest á að menn breyti aðferðafræðinni og hugsun sinni en ekki bara forminu. Við þekkjum það, ef menn ætla sér að halda áfram í þeirri pólitík sem hefur viðgengist mun ekkert breytast. Það er talsvert í land. Síðast í gær voru kosnir nýir formenn og varaformenn í nefndir samkvæmt því kerfi sem við höfum. Það var gert vegna þess að tveir þingmenn úr meiri hlutanum, sem voru formenn þingnefnda, höfðu sagt sig úr þingflokknum. Þau hafa staðið sig afburðavel, held ég, sem formenn sinna málaflokka en framkvæmdarvaldið eða meiri hlutinn sem að þeim stóð taldi ófært að þau sætu áfram sem formenn. Hvað ef við bara breyttum því og það gengi hratt fyrir sig í næstu viku? Í ljós hefur komið að fyrir aðeins einni viku vorum við ekki tilbúin til að hugsa þetta. Það er því ekki nóg að gleðjast yfir forminu, það vantar hugsunina í hvernig við ætlum að vinna verkið. Sjálfstæði þingsins kemur fyrst og fremst með því að þingmenn líti á sig sem löggjafarvaldhafa en ekki framlengingu framkvæmdarvaldsins.

Þá komum við inn á hluti sem menn hafa aðeins rætt, eins og fjölskylduvænan vinnustað. Ég vil tala meira um að vanda sig og vanda þá vinnu sem hér er unnin. Ég hef haft þá skoðun í langan tíma, löngu áður en ég kom inn á þing, að menn reyni að þvæla of mörgum málum í gegn á hverju ári og breyta of mörgu; hugsanlega vegna þess að þeir hafa ekki vandað sig nægilega upphaflega og þurfa alltaf að vera að lagfæra en hugsanlega líka vegna þess að mikill vilji er til að breyta mörgu í einu. Ég held að menn hafi ekki þá langtímahugsun í pólitík að sjá fyrir sér að það tekur lengri tíma að fá allt samfélagið með sér. Kannski er þetta afleiðing af því að við höfum enga reynslu eða fordæmi fyrir minnihlutastjórnum. Hér getur jafnvel lítill meiri hluti stjórnað í krafti síns meiri hluta og valtað yfir minni hlutann sama hversu stór hann er. Þessu þarf að breyta. Ef við ætlum að ná sátt í samfélaginu verða 70%–80% af samfélaginu að standa á bak við slíkar breytingar. Þó að það taki lengri tíma verða menn að sætta sig við það.

Ég held að ein af ástæðunum fyrir því að við erum annars vegar mjög upptekin og mikið að gera og gerum fullt af mistökum sé einfaldlega vegna þess að við séum að reyna að þvæla of mörgum málum í gegnum þingið. Hins vegar er þetta er ákveðinn vettvangur fyrir þingmenn til að láta á sér bera og leggja fram mál. Ég held að það væri áhugavert ef opnu nefndafundunum, sem nefndir eru í frumvarpinu, yrði útvarpað eða sjónvarpað og þar færi fram hluti af þeirri pólitísku umræðu sem er í þinginu og birtist stundum í því að menn kasta fram málum sem þeir vita að fara aldrei eitt eða neitt — í nefndunum færi þá fram dýpri pólitísk umræða. Það er fullt af svona hugsana- og verklagsbreytingum sem hafa lítið með formið að gera en það er ekkert óeðlilegt við að breyta forminu fyrst til að geta fylgt þessu eftir.

Eitt enn langar mig að nefna í sambandi við nefndaskipanina. Þingmannanefndin talaði um það og heilmikið var fjallað um skýrar reglur varðandi innleiðingu EES-reglugerða eða gerða og reglna. Það var jafnvel lagt til að skoðað yrði vandlega hvort Alþingi setti á fót sérstaka nefnd sem hefði það hlutverk að rýna allar EES-gerðir sem væru lagðar fyrir Alþingi. Það er ekki gert. Ég held að verkefni sérnefndarinnar yrði að fjalla um hvort það form sem við höfum á því nú sé nægjanlegt. Ég efast um það. Mér finnst við oft og tíðum, þegar slíkar EES-innleiðingar koma inn í þingið, taka til fótanna, hlaupa út og segja: Það er ekkert við þessu að gera, þetta er bara einhver EES-innleiðing og við verðum bara að setja hana og láta þetta yfir okkur ganga án þess að setja okkur nánar inn í það. Það er þá á höndum eins eða tveggja embættismanna sem hafa metið málið á einhverjum tímapunkti. Nú er til ákveðið form á þessu en það getur vel verið að við þurfum að velta því fyrir okkur hvort þurfi sérnefnd.

Síðan hefur verið rætt um, eins og ég nefndi upphaflega, annan þátt sem er ákaflega mikilvægur og við höfum kannski gert meira í og staðið okkur aðeins betur við. Það eru til að mynda rannsóknarnefndirnar og síðan þessi stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sem ég tel vera ákaflega mikilvæga og nauðsynlega nefnd sem við höfum ekki haft áður til að fylgjast m.a. með störfum Alþingis. Hvað gerum við við allar þær ályktanir, þingsályktunartillögur og annað sem hér er samþykkt? Verður eitthvað úr því? Hver fylgist með því? Síðan eru það fjármál og ákvarðanir ýmissa ríkisstofnana sem við höfum ekki gætt nægilega vel að eins og skýrslu umboðsmanns Alþingis, Ríkisendurskoðunar o.s.frv. Það er því fjöldi verkefna sem við höfum ekki til þessa staðið okkur nægilega vel í og bent var á í rannsóknarskýrslu Alþingis og þingmannaskýrslunni og nú er gerð tilraun til að bregðast við. Ég held að það væri áhugavert að fara yfir það.

Undir lok ræðu minnar langar mig að nefna að ýmsir munu hafa áhuga á að leggja til fleiri breytingar. Ýmislegt fleira er kannski ekki eins og við viljum hafa það. Hér hafa verið nefndir liðir eins og störf þingsins sem er í hálftíma tvisvar í hverri viku og eins óundirbúnar fyrirspurnir til ráðherra. Sjálfur hef ég velt fyrir mér með liðinn störf þingsins, sem margir eru óánægðir með, hvort það væri nægilegt að sá hálftími sem hann tekur væri á dagskrá einu sinni í viku og þá gæfist þingmönnum í því nýja kerfi möguleiki á að spyrja formenn hinna ýmsu þingnefnda um hvar mál væru stödd ef þeir vildu einhverra hluta vegna fylgjast með þeim og væru ekki í viðkomandi þingnefnd. Hinn hálftíminn sem við gæfum okkur mundi hugsanlega verða tvöfaldaður undir sérstökum lið sem héti óundirbúnar fyrirspurnir til forsætisráðherra þar sem einu sinni í viku mundi gefast rýmri tími til að spyrja forsætisráðherra út úr hvað varðar störf ríkisstjórnarinnar. Menn hefðu þá hugsanlega rýmri umræðutíma, ekki eins og nú heldur fleiri mínútur. Það mundi gera það að verkum að hinir óundirbúnu fyrirspurnatímar til ráðherra mundu nýtast öðrum ráðherrum. Við vitum öll að forsætisráðherra er höfuð ríkisstjórnarinnar og ber ábyrgð á störfum hennar. Ekki er óeðlilegt þegar forsætisráðherra er til svara að þingmenn leitist við að beina fyrirspurnum til forsætisráðherra og þá ná kannski aðrir ráðherrar ekki að komast að og þeir þingmenn sem hafa fyrirspurnir til þeirra ráðherra komast heldur ekki að. Ég held að þetta mundi gera það að verkum að umræðan hérna yrði breiðari og við fengjum fyllri upplýsingar um stöðu mála hjá framkvæmdarvaldinu. Þetta væri þar af leiðandi einn liður í því að gera sjálfstæði þingsins meira.

Það er ýmislegt fleira sem væri hægt að nefna. Ég er fyrst og fremst ánægður yfir því að málið skuli komið fram og að það fari til sérnefndar. Auðvitað þurfum við að fjalla um það en ég hvet okkur þingmenn til að vinna hratt og örugglega en vanda okkur við að finna lausn sem við erum sammála um að sé betri. Það getur vel verið að við þurfum að taka hana til endurskoðunar innan árs (Forseti hringir.) og gera þá gott verk enn betra.