139. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2011.

húsnæðismál.

547. mál
[16:48]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir nefndi í ræðu sinni að hún eins og raunar fleiri hefði áhyggjur af þeim kostnaði sem frumvarpið geti haft í för með sér. Ég vildi spyrja hv. þingmann að hvaða leyti hefðu komið fram upplýsingar á vettvangi félagsmálanefndar um hvernig þeim kostnaði yrði mætt.

Ég tek fram að auðvitað er nauðsynlegt að samræmi sé í möguleikum á skuldaniðurfærslu milli Íbúðalánasjóðs og annarra lánastofnana eftir því sem við verður komið en ég vildi spyrja hv. þingmann hvað hefði komið fram, t.d. af hálfu fjármálaráðuneytis eða annarra slíkra aðila, um það hvernig þeim viðbótarkostnaði sem þarna kemur til með að falla til verði mætt?