139. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2011.

stefna Íslands í málefnum norðurslóða.

337. mál
[17:31]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni, framsögumanni málsins, kærlega fyrir framsögu hans og einnig hvernig hann rakti vandamál norðurslóða með ágætum hætti. Það er ákveðin mótsögn í því að menn segi að það séu tækifæri í því að Norður-Íshafið sé að bráðna og hins vegar í því að við berjumst gegn hitnun jarðar sem veldur einmitt þeirri bráðnun, en í sjálfu sér getur maður alveg sagt að fyrst það er að bráðna á annað borð getum við litið á það sem tækifæri. Það er í sjálfu sér ekki nein mótsögn í því en á þetta hefði kannski mátt benda.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann um afstöðu til veiða frumbyggja, t.d. selveiða Grænlendinga, hvalveiða inúíta og hvalveiða Íslendinga, sem hefur mætt mikilli andstöðu umhverfisverndarsamtaka og alveg beinni andstöðu í Evrópusambandinu, þannig að því er hótað að umsóknarbeiðnin sem hv. þingmaður styður, að við göngum inn í Evrópusambandið eða sækjum um aðild, verði ekki afgreidd þeim megin, í Evrópusambandinu, nema við látum af hvalveiðum. Ég ætlaði að spyrja hv. þingmann hvernig hann sjái réttindi frumbyggja, og Íslendinga þar á meðal, til að nýta þessar auðlindir sem þjóðir sem jafnvel eiga ekki aðgang að sjó setja skilyrði um að verði hætt af því að þeir halda og telja að þetta sé ógn við dýrastofna.