139. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2011.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu.

471. mál
[17:44]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir lokaræðuna í fyrri umræðu þessa máls og vil spyrja hana um það sem hún gat ekki um.

Það hafa orðið tíðindi í íslenskum stjórnmálum því að tveir hv. þingmenn hafa sagt sig úr þingflokki vinstri grænna. Við það má segja að ýmislegt hafi breyst í afstöðunni til Evrópusambandsins því að þau voru bæði eindregið gegn Evrópusambandinu ásamt fleirum sem enn sitja í flokknum. Vissulega eru margir í Vinstri grænum ekki ánægðir með að við séum í þessu ferli, aðlögunarferli að Evrópusambandinu, og ég hugsa að það hafi áhrif á þetta mál.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvaða áhrif hún telji að þetta hafi á afgreiðslu þessarar þingsályktunartillögu? Getur verið að hún sé lögð fram núna til atkvæða til að þjappa „köttunum“ saman í þingflokki vinstri grænna til að það komi í ljós hverjir eru raunverulega með því að draga umsóknina til baka, eins og eflaust margir hv. þingmenn vilja í Vinstri grænum, og núna sé sá tímapunktur að þeir þurfi að velja á milli þess og að fyrsta hreina vinstri stjórnin á Íslandi lifi einhverjar vikur í viðbót, því að hún er alltaf við það að falla í hverri viku, að það sé hluti af þessu? Hvaða áhrif telur hv. þingmaður að það umrót sem alls ekki er lokið hafi á afgreiðslu þessa máls?