139. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2011.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu.

471. mál
[17:46]
Horfa

Flm. (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ef mér væri gefin spádómsgáfa væri ég væntanlega ekki hér heldur að sinna slíkum störfum einhvers staðar annars staðar. Hvað drífur á daga þeirrar ríkisstjórnar sem hefur starfað í landinu undanfarin ár og missiri er náttúrlega óútreiknanlegt.

Ég tel að nú sé mönnum algjörlega orðið ljóst að rökin á bak við þá tillögu sem hér er rædd halda. Menn eiga ekki að fara af stað í ferli sem þetta ef hugur fylgir ekki máli. Menn hljóta að læra af reynslunni og horfa til þessa máls um alla framtíð. Það þýðir ekki fyrir ráðandi öfl í ríkisstjórn að stappa niður fótum, knýja í gegn mál og halda að það sé hægt að klára þau í andstöðu við annan ríkisstjórnarflokkinn. Ég tel að menn hljóti að læra það af öllu þessu ferli.

Ég tel að nú séu einfaldlega ekki uppi þeir tímar að menn eigi að fara gegn stórum hluta Alþingis í svo stóru máli sem þessu, að menn eigi að fara gegn meiri hluta þjóðarinnar í stórum málum sem þessu á tímum þar sem reynir virkilega á samstöðu manna. Það er mjög dapurlegt að horfa upp á að okkur hefur ekki tekist hér í þinginu — og ríkisstjórnin ber sérstaklega ábyrgð á því — að sameina kraftana og sameinast um þau mál sem geta þó orðið til þess að koma okkur áfram. Því miður hefur verið lögð áhersla á það sem virðist sundra, jafnvel þó að menn sjái að hugur fylgi ekki máli. Það er afskaplega sorglegt.

Ég get því miður ekki svarað spurningunni um hvað gerist. Vissulega tel ég að brotthvarf þessara tveggja þingmanna úr þingliði vinstri grænna hafi áhrif. (Forseti hringir.) Ég vonast til að það komi í ljós í atkvæðagreiðslunni um tillögu mína.