139. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2011.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu.

471. mál
[17:50]
Horfa

Flm. (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég treysti mér ekki til að fullyrða hve mikil áhrif styrkirnir koma til með að hafa, hins vegar er ljóst að peningar eru hreyfiafl og skipta máli.

Það sem við getum gert og það besta sem við getum gert, fyrir utan að styðja þá ágætu tillögu sem við ræðum nú, er að koma upplýsingum á framfæri við fólkið í landinu sem kemur til með að greiða atkvæði í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um samninginn komi hann til atkvæðagreiðslu. Upplýsingar eru lykillinn að því að menn geti myndað sér afstöðu og tekið ákvörðun í þessu stóra máli.

Því miður virðist krafturinn fara í margt annað en að koma upplýsingum á framfæri varðandi hvernig Evrópusambandið er að þróast og hvaða breyting er að verða á skipulagi þar innan dyra. Þar er horft meira til miðstýringar varðandi fjárhagsleg málefni. Það er nokkuð sem hefur ekki verið til umræðu hér á landi. Við þurfum að gera okkur grein fyrir því. Við vitum að það er efnahagskreppa víðar en hér á landi. Menn eru í miklum vandræðum á evrusvæðinu og þjappa sér meira saman og taka upp meiri miðstýringu líkt og Angela Merkel hefur kallað eftir og fleiri þjóðarleiðtogar. Það er nokkuð sem ég tel að við verðum að koma í umræðuna og átta okkur á hvað Evrópusambandið er og koma á framfæri fyrir hvað það stendur og ekki síður hvernig það hefur þróast vegna þess að við erum að sækja um aðild að því. Við fáum aðild að Evrópusambandinu, verði það niðurstaðan, eins og það er. Við verðum jafnframt að gera okkur grein fyrir því í hvaða átt það er að þróast; það er grundvallarástæða þess að ég tel okkar hagsmunum ekki borgið innan ESB heldur fyrir utan. Tækifærin liggja þar. Við eigum að byggja á sérstöðu okkar (Forseti hringir.) og vera stolt af henni. Við komum til með að koma okkur sjálf út úr þessum efnahagsþrengingum, það gerir enginn annar fyrir okkur.