139. löggjafarþing — 100. fundur,  28. mars 2011.

skattamál.

[15:03]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Hæstv. forseti. Það kom fram í utandagskrárumræðu í liðinni viku um atvinnumál og hagvaxtarmál hjá hæstv. forsætisráðherra að ekki stæði til að hækka skatta á íslensk heimili, heldur sagði hæstv. forsætisráðherra að til stæði að lækka skatta á fjölskyldur, þ.e. akkúrat öndvert, að ríkisstjórnin beitti sér fyrir lækkun skatta á fjölskyldur. Þetta sagði hæstv. forsætisráðherra sem svar við því að stjórnarandstaðan væri svo svartsýn og sæi ekkert fyrir sér nema skattahækkanir og slíka hluti hjá hæstv. ríkisstjórn.

Í Fréttablaðinu í dag kemur fram að hér sé stödd nefnd á vegum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem m.a. er að skoða skattamál. Það kemur fram að t.d. sé verið að skoða hækkun virðisaukaskatts, hækkun eldsneytisskatta og aðrar slíkar skattahækkanir. Það er alveg ljóst að verði af slíkum áformum mun það að sjálfsögðu hafa gríðarleg áhrif á fjölskyldur í landinu. Það þarf ekki að taka það fram að þær álögur sem nú þegar hafa verið lagðar á fjölskyldur eru umtalsverðar og ekki er hægt að sjá að íslenskar fjölskyldur geti greitt hærri álögur en nú þegar hafa verið á þær lagðar. Þess vegna langar mig til að spyrja hæstv. fjármálaráðherra til að fá það á hreint hvort til standi vegna fjárlagaársins 2012 að hækka frekar skatta á íslensk heimili. Stendur til að hækka virðisaukaskattinn? Slíkur skattur mun, eins og þarna kom fram í fréttinni ef það er rétt, hafa bein áhrif á íslenskar fjölskyldur.

Í öðru lagi: Stendur til að hækka eða breyta tekjuskatti einstaklinga?

Í þriðja lagi: Eru uppi áform af hálfu þessarar ríkisstjórnar um að hækka eldsneytisskatta? Það mundi enn fremur hafa gríðarleg áhrif, enda vitum við að rekstur bíls er þungur baggi á íslenskum fjölskyldum.