139. löggjafarþing — 100. fundur,  28. mars 2011.

skattamál.

[15:05]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er nefnd að störfum með bakhópi fulltrúa aðila vinnumarkaðarins og allra þingflokka að fara yfir skattkerfið (Gripið fram í.) á Íslandi í heild. Hún hefur verið að störfum og öllum stendur til boða að vera með í því starfi.

Í öðru lagi er það rétt að sérfræðihópur frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum hefur í tvígang farið yfir skattkerfið okkar, í fyrra skiptið á síðasta ári og skilaði skýrslu í framhaldi af því. Við sömdum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um að sú skýrsla yrði gerð opinber sem ekki er hefðbundið. Í framhaldinu réðst það að þeir höfðu áhuga á að fylgja þessu starfi eftir og skoða þá meira afmarkað tiltekna hluta skattkerfis okkar, svo sem auðlindaskattlagningu og umhverfisskattlagningu, og gera þá í leiðinni úttekt á því hvernig skattkerfið hefði þróast og staðið sig í kjölfar kreppunnar. Þessi sérfræðingahópur er hér að störfum, er u.þ.b. hálfnaður og mun væntanlega ljúka heimsókn sinni á föstudaginn kemur. Síðan fá íslensk stjórnvöld drög að skýrslu hans og geta gert eftir atvikum athugasemdir eða komið með ábendingar. Við munum væntanlega óska eftir því tilviki eins og hinu fyrra að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn veiti undanþágu frá því þannig að birta megi skýrsluna þegar hún verður tilbúin. Það má gera ráð fyrir að það geti orðið í maímánuði eða byrjun júní.

Það eru ekki fyrirhugaðar stórfelldar breytingar í skattamálum á næsta ári, en að sjálfsögðu er ekki hægt að svara því endanlega og fyrir fram hvernig nákvæmlega verður staðið að hvort heldur er gjaldahlið fjárlagafrumvarps að hausti eða tekjuhlið. Svo mikið er víst að við verðum að halda áfram að reyna að ná niður hallanum á ríkissjóði, en ég held að ég geti tekið undir það, hafi forsætisráðherra sagt það, að við gerum ekki ráð fyrir að einhverjar stórfelldar (Forseti hringir.) aðgerðir í skattamálum þurfi til af því tagi sem voru á árunum 2009 og 2010. (Gripið fram í.)