139. löggjafarþing — 100. fundur,  28. mars 2011.

kynning fjármálaráðuneytisins á Icesave.

[15:28]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Mér finnst þessi fyrirspurn ekki samboðin hv. þingmanni. Þetta er ekki fyrirspurn, þetta eru dylgjur. Hv. þingmaður tekur hér útgangspunkt í eldgamalli frétt sem ekki er einu sinni rétt og ekkert var að marka. Það hefur aldrei staðið til að fjármálaráðuneytið fari að taka að sér hlutverk einhverra annarra í þessu máli. Við höfum hins vegar gert öll gögn sem eru í okkar höndum aðgengileg, og þau eru aðgengileg á vef ráðuneytisins. Eini flugufóturinn sem var fyrir einhverju í þessari frétt, ef nokkuð var þá að marka hana sem ég man ekki, það er þá það sem eru gamlar fréttir, að við höfum jafnóðum reynt að gera aðgengileg á heimasíðu ráðuneytisins og vef öll þau miklu gögn sem eru í okkar höndum í þessum efnum, þ.e. alla viðkomandi samninga og gögn og skjöl sem þeim tengjast. Þau getur hv. þingmaður skoðað á heimasíðu fjármálaráðuneytisins. Það er fyrst og fremst okkar framlag.

Það er langt síðan þessi mál voru sett í annan farveg, þ.e. að Lagastofnun Háskóla Íslands var falið að taka saman kynningarefni. Hún aflar sér sjálf upplýsinga þar sem hún telur rétt til að undirbyggja það. Varðandi síðan þau samtök sem fólk hefur myndað til þess að berjast fyrir tilteknum málstað í þessum efnum starfa þau að sjálfsögðu á algerlega sjálfstæðum grundvelli og stjórnvöld eiga enga aðild að þeim, að sjálfsögðu ekki. Eða hvað er hv. þingmaður að reyna að segja hérna? Er hann að reyna að segja að fjármálaráðuneytið sé einhvern veginn að fjarstýra þessu á bak við tjöldin, er það nú allur málatilbúnaðurinn?

Svo er ekki, ég get fullvissað hv. þingmann um að það er ekkert slíkt í gangi og það er alvarleg ásökun ef hv. þingmaður er virkilega að reyna að dylgja um slíkt, ég held að hann ætti að draga hana strax til baka og vera maður að meiri.