139. löggjafarþing — 100. fundur,  28. mars 2011.

kynning fjármálaráðuneytisins á Icesave.

[15:29]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Mér þykir leitt ef hæstv. ráðherra hefur farið úr jafnvægi við þessar spurningar sem ég bar hér upp, það var alls ekki meiningin.

Varðandi allar þær dylgjur sem hæstv. ráðherra talar um vil ég benda honum á að hafa samband við Fréttablaðið því að ég einfaldlega las upp úr Fréttablaðinu frá 11. mars. Hins vegar er þetta bara einföld spurning og ég spyr bara hæstv. ráðherra, hann þarf ekki að svara því, ég tel að hann hafi reyndar svarað því, að ráðuneytið kom ekkert að þeirri vinnu sem þessi Áfram-hópur stendur fyrir, þá er því bara svarað. Þetta ver einföld spurning, hæstv. fjármálaráðherra.

Úr því að hér var minnst á höft rétt áðan, gjaldeyrishöft, þá er það þannig að því hefur verið haldið að fólki að með því að fella Icesave-samkomulagið muni gjaldeyrishöftum verða viðhaldið, þá muni þau lengjast og lengjast. Nú hefur hæstv. fjármálaráðherra kynnt það hér að þau muni lengjast og lengjast, burt séð frá því hvað kemur út úr þessu Icesave-máli. Það er einfaldlega það sem hefur verið sagt hér í dag, er það ekki annars rétt, hæstv. fjármálaráðherra?