139. löggjafarþing — 100. fundur,  28. mars 2011.

beiðni um fund í utanríkismálanefnd.

[15:32]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Ég tel mikilvægt að utanríkismálanefnd komi saman við fyrsta tækifæri í ljósi þess sem kom fram í fyrirspurnatíma áðan vegna þess að í gær var tekin ákvörðun í Norður-Atlantshafsráðinu um að NATO yfirtæki stjórn mála í Líbíu. Hér kemur forsvarsmaður annars stjórnarflokksins og segist ekki hafa haft upplýsingar um málið, að málið hafi ekkert verið rætt í ríkisstjórn. Það skiptir miklu máli, eins og fram kom í þessum fyrirspurnatíma, að það liggi fyrir hvernig staðið var að ákvarðanatöku um ráðstöfun á atkvæði Íslendinga í ráðinu og að það sé engum vafa undirorpið, sérstaklega nú eftir að ákvörðunin hefur verið tekin, um það hver (Forseti hringir.) stuðningur er við málið frá íslenskum stjórnvöldum. Með því að kalla saman fund í utanríkismálanefnd gætum við fengið um þetta nánari upplýsingar (Forseti hringir.) en það sætir mikilli furðu, frú forseti, að um þetta mál (Forseti hringir.) skuli ekki hafa verið rætt í ríkisstjórn og að annar stjórnarflokkurinn virðist ekki upplýstur um það. (BirgJ: Heyr, heyr.)