139. löggjafarþing — 100. fundur,  28. mars 2011.

beiðni um fund í utanríkismálanefnd.

[15:34]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Forseti. Ég tek undir með hv. þm. Bjarna Benediktssyni og kalla líka eftir fundi í utanríkismálanefnd. Ég hef reyndar áður, fyrir rúmlega viku, kallað eftir fundi þar sem ég óskaði eftir að utanríkisráðherra yrði kallaður fyrir fundinn til að fara yfir þessi mál þegar ljóst var hvert stefndi. Það hefur ekki verið orðið við því þannig að ég ítreka þessar óskir og vona að formaður nefndarinnar verði við þeim og það verði boðað til fundar í dag til þess að fá svör við þeim fyrirspurnum sem komu fram í máli hv. þm. Bjarna Benediktssonar.