139. löggjafarþing — 101. fundur,  28. mars 2011.

mengunarmál aflþynnuverksmiðjunnar Becromal við Eyjafjörð.

[16:15]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur orðið um þetta mál sem hefur verið að mörgu leyti ágæt. Ég tek undir það með hæstv. umhverfisráðherra þar sem hún segir að það sé fyrst og fremst metnaður fyrirtækja í umhverfismálum sem skipti gríðarlega miklu í þessu sambandi og er full ástæða til að taka undir það.

Það er líka rétt sem fram kemur í máli hæstv. umhverfisráðherra að því ber að fagna þegar ábendingar berast um mál af þessu tagi bæði frá starfsmönnum fyrirtækjanna sjálfra og annarra sem starfa í þessum geira eða hafa vitneskju um slík mál. Það ber vott um hugarfarsbreytingar, það ber vott um það að fólk lætur umhverfið sig varða. Þrátt fyrir það getum við ekki alfarið treyst á þetta, þ.e. á metnað fyrirtækjanna eða að fá ábendingar um mál eins og það sem við ræðum nú eingöngu um. Það er hins vegar sannarlega jákvætt að það skuli þó gerast.

Það er rétt sem fram hefur komið um framleiðslu þessa tiltekna fyrirtækis, fyrst það er til umræðu, að það er ekki framleiðsluafurðin sjálf sem þar um ræðir heldur hreinsibúnaðurinn sem notaður er til að hreinsa vélarnar sem fór í sjóinn. Það er ekki í sjálfu sér útþynntur vítissódi sem þarna er um ræða, hann er ekki hættulegur umhverfinu sem slíkur, en það er hins vegar PH-stig lausnarinnar sem skiptir öllu máli í þessu, þ.e. upplausnarinnar sem fer út í sjóinn. Ég held að samantekin niðurstaða umræðunnar sé sú að menn vilji gera betur en gert hefur verið í umhverfismálum almennt, bæði hvað varðar þetta fyrirtæki og almennt í landinu. Það held ég að séu mjög jákvæð skilaboð sem við sendum héðan frá okkur því að ég minni á að héðan úr þessum þingsal á undanförnum mánuðum og síðustu þrem, fjórum árum þegar rætt er um atvinnumál hefur mér oft fundist sú tilhneiging vera hjá þingmönnum að þeir vilji frekar draga úr kröfum varðandi umhverfismál og umhverfisþættina í krafti þess að efnahagslíf og atvinnulíf er erfitt í landinu. Ég er ekki endilega viss um að Eyfirðingar séu akkúrat sammála þeim áherslum í dag.