139. löggjafarþing — 101. fundur,  28. mars 2011.

mengunarmál aflþynnuverksmiðjunnar Becromal við Eyjafjörð.

[16:17]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Forseti. Ég vil enn þakka fyrir afar góða umræðu. Ég held að við sem erum kosin til þings séum öll þeirrar skoðunar að Ísland þarf að vera á heimsmælikvarða í mengunarvörnum og ímynd Íslands þarf að byggja á staðreyndum og á raunverulegri stöðu mála í mengunarvörnum. Við höfum ekki lagt megináherslu á þann þátt í umhverfismálum á Íslandi, þ.e. mengunarvarnirnar, en ljóst er að við þurfum að gefa enn þá meira í hvað það varðar.

Það er algjörlega ólíðandi að það sé svo að verksmiðjur, hvort sem það er Becromal eða hvað það er, búi við slíka forustu að það sé lengi vitað að hreinsunarbúnaður virki ekki sem skyldi þegar álagið er sem mest án þess að af því sé látið vita. Ég lýsi eftir því að Samtök atvinnulífsins og Samtök iðnaðarins komi inn í þessa umræðu með metnaðarfullum hætti því að það hlýtur að vera markmið þessara heildarsamtaka á Íslandi að mengunarvarnir séu þáttur í uppbyggingu atvinnulífs á Íslandi til að við stöndum undir nafni að því er það varðar.

Mig langar að segja, af því að hér hefur verið rætt um framkvæmd eftirlits og staðsetningu þess o.s.frv., að það er rétt sem kom fram í máli m.a. hv. þm. Kristjáns Þórs Júlíussonar að vinna hefur verið í gangi um nokkurt skeið í umhverfisráðuneytinu. Ég er þeirrar skoðunar að færa þurfi meira af eftirlitinu heim, ekki vegna þess að ég telji að þar með séu öll mál leyst vegna þess að við það vakna ný vandamál, en að því er varðar minni atvinnustarfsemi þarf það að vera heima, en stærri og flóknari verkefni þurfa að vera miðlæg vegna aflsins sem Umhverfisstofnun hefur. Ég mun fara yfir þetta ítarlega, valdheimildir Umhverfisstofnunar, lagaumhverfið og framkvæmd (Forseti hringir.) eftirlits með mengandi starfsemi á Íslandi í kjölfar þessa máls.