139. löggjafarþing — 101. fundur,  28. mars 2011.

úthlutun veiðileyfa til ferðaþjónustuaðila á hreindýraveiðisvæðum.

500. mál
[16:21]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Jónína Rós Guðmundsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Mig langar að ræða við hæstv. umhverfisráðherra um möguleika á því að úthluta einhverjum hluta hreindýraveiðileyfa til ferðaþjónustuaðila á hreindýraveiðisvæðum. Nú er nýbúið að úthluta um þúsund hreindýraveiðileyfum til jafnmargra einstaklinga en margfalt fleiri sóttu um þessi leyfi. Ferðaþjónustuaðilar sem hafa verið að markaðssetja þjónustu sína til veiðimanna hafa velt því fyrir sér hvernig þeir gætu náð stöðugleika í þessa þjónustu sína þar sem kúnnahópurinn endurnýjast stöðugt og ekki er hægt að tryggja gömlu viðskiptavinunum þjónustuna með því sem eftirsóknarverðast er, þ.e. veiðileyfinu sjálfu.

Á hátíðisdögum tölum við gjarnan um að lengja þurfi ferðamannatímabilið og tryggja ferðaþjónustunni öruggan rekstrargrundvöll. Hér er því ákveðið tækifæri til að láta athöfn fylgja orðum. Leiðsögumenn með hreindýraveiðum hafa aflað sér þekkingar og reynslu, bæði almennrar og sértækrar, til að sinna starfi sínu og vinna gjarnan með ferðaþjónustuaðilum. En einnig í þeirra starfi er ákveðinn óstöðugleiki vegna þess kerfis sem nú er í gildi við úthlutun leyfanna. Ég hef lengi velt því fyrir mér hvort finna mætti kerfi sem tryggði atvinnufólki á svæðinu meiri stöðugleika í störfum sínum og hef í því sambandi velt fyrir mér hvort binda mætti ákveðið hlutfall leyfanna í pott sem úthlutað yrði til viðurkenndra ferðaþjónustuaðila til að tryggja þeim stöðugleika í þjónustu sinni. Síðan mætti hugsanlega víkka þjónustuna út vegna veiða á fleiri sviðum. Fyrir þau leyfi kæmi að sjálfsögðu a.m.k. sama verð og aðrir greiða og þessum hlut yrði skipt eins og gert er almennt.

Ég geri mér grein fyrir að þetta er ekki einfalt úrlausnarefni því að að sjálfsögðu þarf að gæta jafnræðis, bæði hvað varðar rétt til að eiga möguleika á því að fá leyfi svo og efnahagslega því að ég kæri mig ekki um að hægt verði að fara í yfirboð til að ná sér í langþráð veiðileyfi. Hér er sum sé um afar spennandi úrlausnarefni og ögrandi verkefni að ræða sem ég vona að hæstv. ráðherra sé tilbúin að skoða vel með lausnamiðuðu hugarfari.