139. löggjafarþing — 101. fundur,  28. mars 2011.

úthlutun veiðileyfa til ferðaþjónustuaðila á hreindýraveiðisvæðum.

500. mál
[16:23]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir fyrirspurnina. Leyfum til veiða á hreindýrum er úthlutað í samræmi við lög sem einatt eru kölluð villidýralögin, þ.e. lög um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, og reglugerðir sem hafa verið settar á grundvelli þeirra laga og gilda um hreindýraveiði. Í þessum lögum er tekið fram að Umhverfisstofnun annist sölu veiðileyfa og eftirlit með hreindýraveiðum og að umhverfisráðherra setji að fengnum tillögum Umhverfisstofnunar nánari reglur um framkvæmd hreindýraveiða. Þetta hefur verið gert með útgáfu reglugerðar frá 2003 um stjórn hreindýraveiða þar sem kveðið er á um að veiðileyfi skuli gefa út á nafn veiðimanns og það sé ekki framseljanlegt Veiðileyfi sem úthlutað hefur verið til veiðimanns skal skila til Umhverfisstofnunar geti eða hyggist veiðimaður ekki nýta leyfið. Í reglugerðinni kemur enn fremur fram að Umhverfisstofnun selji veiðileyfi gegn gjaldi sem ákveðið sé af ráðherra.

Umhverfisráðuneytinu hafa nýlega borist fyrirspurnir um mögulega úthlutun veiðileyfa til ferðaþjónustuaðila með þeim rökum að meiri arð mætti fá af hreindýraveiðunum með því að úthluta ákveðnum hluta kvótans til fyrirtækja í ferðaþjónustu sem sérhæfa sig í þjónustu við erlenda ferðamenn, eins og fram kemur í fyrirspurn hv. þingmanns. Þannig mætti samkvæmt röksemdum þeirra sem erindin senda auka arð af hreindýraveiðum, einkum með fullnýtingu afurða af hreindýrum heima í héraði og hefur það auðvitað á sér brag og yfirbragð sjálfbærrar ferðaþjónustu.

Einnig hefur verið bent á að erlendir veiðimenn þurfi lengri tíma til að skipuleggja hreindýraveiðiferð til Íslands en mögulegt er miðað við tímann frá úthlutun veiðiheimilda að veiðitíma. Búið er að úthluta veiðileyfum fyrir árið 2011 en ég tel sjálfsagt að kanna þetta betur í tengslum við endurskoðun á lögum og reglugerðum um stjórn hreindýraveiða sem fyrirhuguð er. Hafa verður þó í huga í þessari umræðu að miðað hefur verið við það og þá sjálfsögðu reglu, vegna þess að hér er um auðlind að ræða, að jafnræði sé milli veiðimanna við úthlutun leyfa til að veiða hreindýr. Sérstakur kvóti fyrir ákveðnar ferðaskrifstofur, annaðhvort þeirra sem hafa aðsetur á hreindýrasvæðum eða þeirra sem sérhæfa sig í skipulagningu veiðiferða fyrir útlendinga, kann að leiða til þess að Íslendingar og útlendingar standi ekki jafnfætis við úthlutun veiðileyfa.

Í ljósi þess að nú er að verða komin 20 ára reynsla af núverandi fyrirkomulagi á stjórn hreindýraveiða er tímabært að huga að kostum þess og göllum og hvernig stjórn veiðanna hefur til tekist og þessi endurskoðun þarf líka að eiga sér stað í samvinnu við heimamenn.

Nú er að störfum nefnd sem hefur fengið það hlutverk að fara yfir framkvæmd laganna og í framhaldinu er fyrirhugað að endurskoða lögin með hliðsjón af tillögum eða ábendingum þeirrar nefndar. Þar undir er auðvitað allt sem lýtur að hreindýraveiðum. Einnig er mikilvægt að hafa samráð við veiðimenn og við hagsmunaaðila um allar breytingar sem kunna að vera gerðar á núverandi úthlutun leyfa til hreindýraveiða í framtíðinni.