139. löggjafarþing — 101. fundur,  28. mars 2011.

úthlutun veiðileyfa til ferðaþjónustuaðila á hreindýraveiðisvæðum.

500. mál
[16:26]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Mig langar að gera stutta athugasemd við þessa fyrirspurn og svar ráðherra. Ég vil vara eindregið við því að þessi skref verði stigin og að þessi leið verði farin sem lögð er til hér. Hugmyndin að baki henni er krafa ferðaþjónustunnar og fyrirtækja á Austurlandi til að geta grætt meiri pening.

Hreindýrin á Íslandi eru eins og aðrar náttúruauðlindir þjóðarinnar í eigu allrar þjóðarinnar, það getur enginn kastað eign sinni á þau og þau mega ekki fara sömu leið og laxveiðileyfin í okkar fallegu ám. Þeim er fyrst og fremst úthlutað til auðugra erlendra efnamanna og Íslendingar komast kannski í fimmta eða sjötta sætið þar á eftir. Það er ekki leið sem við eigum að fara í þessum málum. Hreindýraleyfin hafa verið til fyrirmyndar hvernig þeim hefur verið úthlutað í 20 ár. Vonandi breytum við ekki af þeirri leið.