139. löggjafarþing — 101. fundur,  28. mars 2011.

aðgengi almennings að Vatnajökulsþjóðgarði.

501. mál
[16:34]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja máls á stöðu aðgengis að Vatnajökulsþjóðgarði. Þjóðgarðurinn er í uppbyggingarfasa enn þá og verður því væntanlega gert betur frá ári til árs í þeim efnum. Stefnumótun um aðgengi almennings að þjóðgarðinum liggur fyrir í stjórnunar- og verndaráætlun Vatnajökulsþjóðgarðs sem staðfest var á dögunum og er sú skýrsla aðgengileg á heimasíðu þjóðgarðsins. Þar kemur m.a. fram að stórbæta eigi aðgengi almennings að landi í þjóðgarðinum og er tekið tillit til ólíkra útivistarhópa. Á grunni verndaráætlunarinnar er unnið að aðgerðaáætlun til 10 ára og á grunni hennar liggur fyrir framkvæmdaáætlun fyrir árið 2011. Í þeirri áætlun eru upplýsingar um alla stærri og kostnaðarsamari úrbætur í aðgengismálum í þjóðgarðinum.

Göngustígakerfi Vatnajökulsþjóðgarðs er afar breytilegt eftir svæðum en rótgróið göngustígakerfi er t.d. í Skaftafelli og Jökulsárgljúfrum þar sem sjálfboðaliðar hafa í rúm 30 ár unnið að stígagerð og endurbótum á stígum. Víða í þjóðgarðinum er hins vegar aðeins um að ræða stikaðar gönguleiðir. Þess ber að geta sérstaklega að sumarið 2011 verður unnið að uppsetningu gestagatna á öllum fjórum svæðum þjóðgarðsins fyrir styrk frá Vinum Vatnajökuls. Gestagata er stígur sem lagður er í þeim tilgangi að veita virka fræðslu um náttúru eða sögu tiltekins svæðis.

Á norðursvæði þjóðgarðsins í Jökulsárgljúfrum er 66 km langt stígakerfi. Þar hafa stígar verið flokkaðir í samræmi við erfiðleikastuðul. Sérstakt ánægjuefni er að síðastliðið sumar uppfyllti stígurinn að Botnstjörn í Ásbyrgi kröfur stuðulsins um stíga fyrir hreyfihamlaða.

Á hálendi svæðisins er göngustígakerfið ekki eins þróað en þar eru merktar fimm gönguleiðir í Herðubreiðarfriðlandi og þrjár í náttúruvættinu Öskju ásamt því að Öskjuvegur, sem er merkt gönguleið, er að hluta innan þjóðgarðsins.

Fyrirhugaðar framkvæmdir á svæðinu árið 201l eru auk almenns viðhalds og lagfæringa nauðsynlegar breytingar á stígum og útsýnisstöðum, reiðleið í Ásbyrgi milli skeiðvallar og íþróttavallar í samstarfi við hestamannafélög og að velja stíga fyrir umferð hjólreiðafólks.

Á austursvæði þjóðgarðsins og umsjónarsvæði eru fimm stikaðar gönguleiðir en auk þess liggja um svæðið gamlar þjóðleiðir og nýjar leiðir sem enn eru óstikaðar. Fyrirhugaðar framkvæmdir á árinu 2011 eru auk almenns viðhalds og lagfæringa m.a. að stika tvær nýjar leiðir og meta ástand reiðleiða á Snæfellsöræfum.

Þá er á áætlun að setja upp merkingar og stika fjórar stuttar gönguleiðir á Gæsavatnaleið.

Á áætlun 2012 er að fjölga stikuðum leiðum í Kverkfjöllum og Snæfelli.

Á suðursvæði þjóðgarðsins er Skaftafell sem verið hefur þjóðgarður frá 1967. Er þar því rótgróið göngustígakerfi eins og áður er getið. Sumarið 2010 var gerð úttekt á göngustígum í Skaftafelli og lagðar fram tillögur um úrbætur. Í Hoffelli og Hjallanesi eru merktar gönguleiðir. Á svæðinu var ein leið aðgengileg hreyfihömluðum en vegna grjóthruns og vatnsskemmda þarfnast hún lagfæringar. Sú vinna er á áætlun í vor. Fyrirhugaðar framkvæmdir á svæðinu eru m.a. breytingar á gönguleiðinni að Svartafossi, stikun gönguleiðar yfir Morsárdal frá Réttargili og stikun gönguleiðar umhverfis stuðlabergið á Heinabergssvæðinu. Þá verður skoðaður möguleiki á að opna fyrir reiðhjólaumferð inn í Kjós.

Á vestursvæði þjóðgarðsins voru Lakagígar friðaðir fyrir stofnun þjóðgarðsins og eru þar nokkrir stígar, m.a. stígur frá bílastæðinu við Tjarnargíg að gígvatninu sem er fær hreyfihömluðum. Merktir göngustígar utan Lakasvæðisins eru í Eldgjá og frá Nýjadal inn í Vonarskarð. Auk þessa er fjöldi ómerktra gönguleiða innan vestursvæðisins og er unnið að því að merkja þær á sérstakt kort.

Á svæðinu eru tvær skilgreindar reiðleiðir, annars vegar um Nýjadal, Tómasarhaga og Fjórðungsöldu og hins vegar um Hrossatungu, Blágil og Blæng. Fyrirhugaðar framkvæmdir auk venjubundins viðhalds á vestursvæðinu er lagning gestagötu um Eldborgarfarveg þar sem sögð verður saga Skaftárelda.

Hvað varðar fræðsluefni í þjóðgarðinum er í undirbúningi útgáfa á miklu efni, svo sem útgáfa bókar, korta og bæklinga, auk fræðsluskilta vítt og breitt um þjóðgarðinn. Dæmi um bæklinga og kort sem eru til yfir svæði innan Vatnajökulsþjóðgarðs er m.a. bæklingur yfir Jökulsárgljúfursvæðið frá 2009, fyrir Snæfellsöræfi frá 2010, endurskoðaður bæklingur um Lakagíga frá 2010 og Skaftafell frá 2008. Fyrir sumarið 2011 er gert ráð fyrir útgáfu nýrra bæklinga, þar á meðal sameiginlegri útgáfu norður- og austursvæðis sem m.a. nær til Kverkfjalla, Hvannalinda og Krepputungu, gönguleiðabæklings fyrir Skaftafell og önnur kjarnasvæði á suðursvæðinu og nýjum bæklingi sem spannar yfir Lakagíga, Langasjó og Eldgjá. Árið 2012 er síðan áætlað að gefa út gönguleiðabækling fyrir suðursvæðið í heild og nýjan upplýsinga- og gönguleiðabækling fyrir svæðið Tungnáröræfi, Tungnafellsjökul og Vonarskarð.

Ég vona að þessi yfirferð hafi gefið nokkuð skýra mynd af því hver staðan er núna með aðgengi og stígagerð. Að sjálfsögðu er uppbygging þjóðgarðsins langtímaverkefni en ekki síður áherslan á að skapa sátt um garðinn meðal almennings til lengri framtíðar. En eins og ég segi er garðurinn enn í uppbyggingarfasa og verður um nokkurra ára skeið.