139. löggjafarþing — 101. fundur,  28. mars 2011.

álversframkvæmdir í Helguvík.

538. mál
[16:52]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég er alveg sammála hv. síðasta ræðumanni. Afstaða ráðherra á ekki að byggjast á því hvað henni finnist um möguleika á því að eitthvað geti orðið á einhvern hátt sem hún hefur ekkert vald yfir. Hæstv. ráðherra hlustar nefnilega ekki á sérfræðinga, helstu sérfræðinga í jarðhita á Reykjanesi, forðafræðingana, verkfræðingana, sérfræðinga HS Orku, sem hafa byggt upp stórkostlega jarðhitavirkjun í Svartsengi og þekkja þessi mál gerst, það er ekki hlustað á þá sérfræðinga.

Það er ekki nóg, hæstv. forseti, að tala um skynsemi og raunveruleika, það er ekki nóg að nefna þau orð, ég sé enga skynsemi í því hvernig hæstv. ráðherra talar um þetta. Hún miklar fyrir sér orkuna og stærðina á álverinu, við erum að tala um 250 þúsund tonna álver sem umhverfismat er fyrir. Þá skulum við bara tala um hlutina eins og þeir eru. Það er það sem búið er að samþykkja, það er það sem fyrirtækið veit að liggur á teikniborðinu. Þá skulum við ekki vera að gera eitthvað meira úr því en ástæða er til. Af hverju ætti orkufyrirtæki sem er, eins og ég lýsti áðan, með helstu sérfræðinga innanborðs, að vilja fara út í framkvæmdir við auðlind ef þeir hefðu áhyggjur af að þurrausa hana? Þá kæmist orkufyrirtækið nefnilega í vandræði. Orkufyrirtækið gerir ekki samninga við framleiðslufyrirtæki um orku ef það veit að það getur ekki skaffað hana, það er raunveruleikinn, það er skynsemin.

Hæstv. ráðherra verður að svara því til hver afstaða hennar er. Mun hún leggjast gegn álveri í Helguvík, eins og segir í fréttinni, mun hún gera eitthvað til að leggjast gegn álveri í Helguvík? Og hver er skynsemin og hver er raunveruleikinn í hugmyndum hæstv. ráðherra um eldfjallagarðinn og umhverfisáhrifin af honum?