139. löggjafarþing — 101. fundur,  28. mars 2011.

skuldamál lítilla og meðalstórra fyrirtækja.

619. mál
[16:57]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Fyrir þremur og hálfum mánuði, 15. desember síðastliðinn, var undirritað merkilegt samkomulag sem að komu atvinnulífið, bankarnir og fjármálafyrirtækin. Það fól í sér tilraun til að búa til samkomulag og ákveðið verklag um úrvinnslu skuldamála lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Í daglegu tali er þetta kallað Beina brautin og felur í sér að búa til ákveðið form til að hægt sé að leysa úr skuldamálum þessara fyrirtækja á sem skjótvirkastan hátt. Fyrir þessu eru auðvitað augljós rök. Við vitum að mörg fyrirtæki eru ýmist með öfugan höfuðstól eða lítið eigið fé og talið var að samkomulagið gæti náð til á bilinu 5–7 þúsund fyrirtækja. Þessi fyrirtæki eru augljóslega ekki að taka á í neinu efnahagslegu tilliti. Þau takast ekki á við fjárfestingar, þau fá auðvitað ekki lánafyrirgreiðslu lánardrottna sinna o.s.frv. Augljóst er að þetta hægir á þeim litla hagvexti sem hér hefur verið.

Það er líka ljóst að ekki eru hagsmunir eins eða neins að knýja öll þessi fyrirtæki í gjaldþrot. Það mundi fela í sér gríðarlega mikla sóun og mjög margir mundu tapa vinnunni ef sú yrði niðurstaðan. Þess vegna var mikið fagnaðarefni á sínum tíma að þetta samkomulag náðist.

Nú hafa hins vegar verið að berast fréttir af því að samkomulagið muni kannski ekki ná til þessara 5–7 þúsund fyrirtækja að lokum heldur kunni þau að vera færri. Þá vaknar auðvitað spurningin: Ef svo er, hvers vegna er það? Hefur vandi fyrirtækjanna verið ofmetinn? Eða telja bankarnir að ekki sé hægt að koma að úrlausn skuldavanda þessara fyrirtækja? Við því hef ég auðvitað ekki svör.

Ég hef hins vegar spurt hæstv. ráðherra nokkurra spurninga sem lúta að þessu, m.a. um hversu mörg fyrirtækin eru sem koma til álita og verið er að vinna að úrlausnum fyrir. Sérstaklega spyr ég hvernig þessu er skipt á milli bankanna. Það er auðvitað ákveðin vísbending um vilja og árangur bankanna hversu mörg fyrirtæki þeir taka fyrir í þessari vinnu. Það líður á tímann, ætlunin var að tillögur um úrlausnir lægju fyrir 1. júní næstkomandi, þ.e. eftir tvo mánuði. Nú eru liðnir þrír og hálfur mánuður og einungis tveir eftir þannig að tíminn er augljóslega ekki að vinna með okkur. Þess vegna hef ég lagt þessar spurningar fyrir hæstv. ráðherra. Ef svo fer að ekki verður hægt að ljúka úrvinnslu þessara mála fyrir tilsettan tíma, er ætlunin að framlengja tímann?

Virðulegi forseti. Kjarni málsins er að þetta er gífurlega mikið hagsmunamál og getur ráðið miklu um framvindu efnahagsmála á næstunni. Þess vegna skiptir miklu máli hvernig til mun takast.