139. löggjafarþing — 101. fundur,  28. mars 2011.

mannauðsstefna.

514. mál
[17:12]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Frú forseti. Einn stærsti atvinnurekandi landsins er hið opinbera, þ.e. ríkið, sem hefur þúsundir einstaklinga í vinnu, í ráðuneytum, stofnunum og fyrirtækjum sem ríkið hefur eignarhald á. Ég beini því fyrirspurn til hæstv. fjármálaráðherra um mannauðsstefnu: Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að mannauðsstefnu verði fylgt í rekstri stofnana og fyrirtækja í eigu ríkisins?

Ég beini þessari fyrirspurn til hæstv. ráðherra í kjölfar skýrslu sem kom frá Ríkisendurskoðun fyrir nokkru um mannauðsstjórnun. Mannauðsstjórnun er viðurkennd fræðigrein innan háskólasamfélagsins og er í raun og veru orðin mjög útbreidd innan almennra fyrirtækja. Í meginatriðum snýst mannauðsstjórnun um að laða að, þróa og halda hæfu starfsfólki. Til að það takist þurfa allir stjórnendur að sinna starfsmannastjórnun en ekki einungis starfsmannastjórar.

Það eru mjög athyglisverðar upplýsingar sem koma fram í þessari skýrslu Ríkisendurskoðunar. Þar kemur m.a. fram að ríkisstofnanir með fleiri en 100 starfsmenn voru almennt með sérstakan starfsmann sem eingöngu sinnir mannauðsmálum. Hins vegar hefur komið fram og er leitt fram í þessari skýrslu að einungis 44% ríkisstarfsmanna eru ánægð með stjórnun sinnar stofnunar og rúmur helmingur með æðsta yfirmann sinn. Forstöðumenn voru jafnframt spurðir að því hvort frammistaða starfsmanna hjá viðkomandi stofnun væri metin með formlegum og reglulegum hætti en einungis rúmlega helmingur þeirra svaraði þeirri spurningu játandi. Hátt í helmingur starfsmanna hjá hinu opinbera fer því ekki í þau reglubundnu starfsmannaviðtöl þar sem viðkomandi yfirmaður og starfsmaður fara yfir líðan viðkomandi starfsmanns, hvað megi bæta. Þar með ættu náttúrlega stjórnunarhæfileikar viðkomandi forstöðumanns að aukast við að vera í sem nánustu og bestu sambandi við starfsfólk sitt. Það er ein af ábendingum Ríkisendurskoðunar og tilmælum að forstöðumenn meti frammistöðu starfsmanna reglulega og með formlegum hætti.

Maður veltir því fyrir sér í ljósi hrunsins, sem svo algengt er að miða við, að nú ættum við að nýta tækifærið og hugsa þessa hluti upp á nýtt og innleiða, rétt eins og atvinnulífið hefur verið að gera í starfsemi sinni á undangengnum árum, með markvissum hætti starfsmannastefnu hjá ríkisstofnunum og ríkisfyrirtækjum. Það er sérstaklega bent á að það sé pottur brotinn þegar kemur að smærri stofnunum á vegum hins opinbera. Það er vissulega áhyggjuefni að 44% opinberra starfsmanna eru ekki ánægðir (Forseti hringir.) með sinn yfirmann.