139. löggjafarþing — 102. fundur,  29. mars 2011.

störf þingsins.

[14:04]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Vinstri hreyfingin – grænt framboð er stjórnmálahreyfing sem berst fyrir friði, mannréttindum og lýðræði og gegn hvers konar kúgun og ofbeldi og styður baráttu þjóða fyrir sjálfstæði og frelsi undan ógnarstjórnum. Við teljum einnig að Sameinuðu þjóðirnar séu réttur vettvangur til að meta stöðu mála þar sem átök geysa og ákveða og axla ábyrgð á viðeigandi aðgerðum af hálfu alþjóðasamfélagsins til að tryggja öryggi almennra borgara. Í því ljósi styðjum við samþykkt öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1973 sem lýtur einkum og sér í lagi að flugbanni og aðgerðum til að verja óbreytta borgara en einnig að nauðsyn friðarumleitana og hefur framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna skipað sérstakan fulltrúa í því augnamiði. Í samþykkt öryggisráðsins er jafnframt áskilnaður um samstarf við ríki Arababandalagsins um allar aðgerðir og án slíks samráðs væri farið út fyrir umboð Sameinuðu þjóðanna.

Færa má rök fyrir því að aðgerðir sem Bandaríkjamenn, Bretar og Frakkar stóðu fyrir í upphafi hafi verið á mörkum umboðs Sameinuðu þjóðanna og jafnvel komnar út fyrir það með loftárásum á borgaraleg skotmörk en slíkt grefur undan vægi Sameinuðu þjóðanna. Vinstri græn eru andvíg hvers konar hernaðarbandalögum og aðild Íslands að NATO, ein íslenskra stjórnmálaflokka, enda þótt á Alþingi hafi jafnan verið meiri hluti fyrir þeirri aðild var þjóðin ekki spurð álits á sínum tíma sem er þó vissulega aldrei of seint að gera. Þrátt fyrir að samþykki öryggisráðsins heimili ekki einungis einstökum ríkjum heldur einnig ríkjabandalögum að framfylgja flugbanninu yfir Líbíu er það sjálfstæð ákvörðun NATO í þessu tilviki hvort það vill taka að sér hlutverk í þessu efni.

Eins og kom skýrt fram af hálfu formanns VG í þinginu í gær styður flokkurinn ekki þátttöku NATO í aðgerðunum í Líbíu og átti ekki þátt í þeirri afgreiðslu þar sem Ísland beitti sér alls ekki fyrir aðgerðum af hálfu NATO en lagðist ekki gegn þeim. Það er staðfest skoðun VG að stríðsrekstur leysi engan vanda heldur sé fremur fallinn til að auka neyð og vanlíðan þeirra þjóða sem í hlut eiga eins og mýmörg dæmi sanna. Við eigum samleið með þeim sem vilja tryggja frið og öryggi almennra borgara, ekki herveldum eða bandalögum þeirra sem oftar en ekki láta stjórnast af efnahagslegum (Forseti hringir.) og pólitískum hagsmunum.