139. löggjafarþing — 102. fundur,  29. mars 2011.

störf þingsins.

[14:08]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Virðulegi forseti. Við þurfum á margan hátt að laga til í samfélagi okkar og þar mun LÍÚ-armur Samtaka atvinnulífsins ekki ráða för. Við þurfum mestan part að koma atvinnulífinu enn frekar af stað en gert hefur verið og þar hef ég gagnrýnt kannski manna mest ríkjandi stjórnvöld vegna þess að það ætti að vera okkur næg aðvörun í þeim efnum að horfa framan í atvinnulaust fólk á hverjum degi. Við þurfum að koma atvinnulífinu eins hratt og vel af stað og hægt er.

Við þurfum líka að horfa til komandi kjarasamninga hvað skattkerfið snertir. Þar kemur tvennt til greina sem ég vil að verði skoðað mjög vandlega. Ég hef ekki verið talsmaður mikilla skattahækkana og geld varhuga við að þær leggist af ofurþunga á fjölskyldufólk og fyrirtæki. En ég hef ásamt fleiri samfylkingarmönnum talað fyrir því að beita skattkerfinu hvetjandi á fyrirtæki þannig að þau geti í ríkari mæli tekið við starfsfólki og fái umbun fyrir það í gegnum skattkerfið. Það kæmi svo til baka inn í ríkissjóð með göfugri hætti en annars vegna þess að þá fengju fleiri vinnu. Eins tel ég koma til greina að við komum betur til móts við barnafólk í landinu sem tekur á sig mestu byrðarnar í samfélaginu í gegnum skattkerfið. Skattkerfið er tekjujöfnunarkerfi, mannanna verk sem við getum breytt og á að koma til móts við það fólk sem ber þyngstu byrðarnar á hverjum tíma og er einmitt barnafólk. Ég geld varhuga við því að við göngum inn í sumar og vetur þar sem hópurinn sem líður e.t.v. mest fyrir komandi aðgerðir verður sá breiði hópur barnafólks sem er að koma sér upp fjölskyldu og íbúð í landinu. Við þurfum á því að halda að sá hópur sé mjög traustur (Forseti hringir.) í uppbyggingu landsins.