139. löggjafarþing — 102. fundur,  29. mars 2011.

störf þingsins.

[14:10]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Það þarf væntanlega ekki að rifja upp að þegar Alþingi samþykkti árið 2008 að leggja á gjaldeyrishöft var það gert í trausti þess að þau stæðu einungis í nokkra mánuði. Ég efast um að nokkur alþingismaður hefði samþykkt að grípa til þeirra ráðstafana hefðu þeir vitað að gjaldeyrishöftin ættu að standa í 7–8 ár.

Nú hefur ríkisstjórnin með hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra í broddi fylkingar kynnt áform sín um að festa gjaldeyrishöft í sessi a.m.k. til ársins 2015. Það eru hrikaleg tíðindi fyrir almenning í landinu en ekki síður atvinnulífið og þau ótíðindi bætast við hærri skatta, hækkað tryggingagjald og almennt átak ríkisstjórnarinnar gegn atvinnuuppbyggingu. Viðbrögðin láta ekki á sér standa. Fyrirtæki eins og CCP mun hugsanlega neyðast til að flýja land. Við fáum ekkert erlent fjármagn og fjárfestingu inn í landið sem við þurfum svo nauðsynlega á að halda. Traustið á efnahagslífið og fjármálakerfið er í lágmarki og allra minnst hjá núverandi ríkisstjórn enda staðfesta áform hennar um að festa gjaldeyrishöftin í sessi vantrú hennar á eigin hagkerfi.

Í stað þess að leysa vandann hefur hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra nýtt tímann í að tala niður eigin gjaldmiðil og lýsir framtíðarstefnu ríkisstjórnarinnar opinberlega þannig að gamaldagskrónu og gamaldagsgjaldeyrishöft kalli á gamaldagsatvinnustefnu. Ég spyr: Er ekki kominn tími til að hv. þm. Magnús Orri Schram, varaformaður viðskiptanefndar, viðurkenni að í þeirri ákvörðun að festa gjaldeyrishöftin í sessi til ársins 2015 felist alger uppgjöf ríkisstjórnarinnar við að takast á við þau verkefni sem henni hafa verið falin? Er ekki kominn tími til að lýsa því yfir að ríkisstjórninni hafi mistekist sú endurreisn efnahagslífsins sem hún ætlaði sér að ráðast í? Getur hv. þingmaður upplýst fólkið og fyrirtækin í landinu um hvort frekari ótíðinda er að vænta frá ríkisstjórninni og ríkisstjórnarmeirihlutanum? (Forseti hringir.) Eru t.d. tillögur eða hugmyndir í farvatninu um að taka upp opinbera verðstýringu eða aðrar miðstýrðar aðgerðir (Forseti hringir.) til viðbótar því að festa gjaldeyrishöftin í sessi?