139. löggjafarþing — 102. fundur,  29. mars 2011.

störf þingsins.

[14:15]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Forseti. Ég er hér með fyrirspurn til formanns utanríkismálanefndar er varðar undarlega endurtekningu á sögunni. Ég er svolítið slegin yfir því að heyra að hæstv. utanríkisráðherra hafi ekki ráðfært sig við ríkisstjórnina áður en ákveðið var að Ísland mundi styðja við NATO-aðgerðir í Líbíu út af því að ég held að það að ríkisstjórnin hafi samþykkt að styðja ályktun öryggisráðsins sé allt annað mál en að styðja aðild Íslands að stríði í Líbíu.

Mig langar að spyrja hv. þm. Árna Þór Sigurðsson hvort honum finnist þetta góð stjórnsýsla. Það er ljóst að við tölum nú tungum tveim á vettvangi NATO, ein tungan segir já og hin segir nei. Mér finnst jafnframt ástæða til að benda á að strax föstudaginn eftir að þessi samþykkt öryggisráðsins varð að veruleika kallaði ég eftir fundi í utanríkismálanefnd þar sem ég bað um að hæstv. utanríkisráðherra yrði kallaður til nefndarinnar til að fara yfir stöðu mála af því að það var ljóst að hlutirnir voru að gerast mjög hratt. Strax þarna á fyrstu dögum voru komnar upp gagnrýnisraddir, meðal annars frá Arababandalaginu, en stuðningur þess var forsenda þess að styðja við loftferðabann.

Mig langar jafnframt að benda á að við höfum enn ekki fengið fulltrúa frá SHA, Samtökum hernaðarandstæðinga, Sverri Jakobsson, á fund nefndarinnar eins og ég bað um. Ég óska eftir að fá upplýsingar um af hverju hann hefur ekki enn verið boðaður á fund nefndarinnar til (Forseti hringir.) að heyra rödd friðarsinna.