139. löggjafarþing — 102. fundur,  29. mars 2011.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar.

555. mál
[14:35]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi um breyting á lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, nr. 78/1997. Lagafrumvarp þetta er í tveimur greinum. Annars vegar um gildistöku laganna sem er þegar við samþykkt þeirra, ef af verður, og 1. gr. er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Nú er sóknarpresti eða presti veitt lausn frá embætti, leyfi frá störfum eða hann forfallast af öðrum ástæðum og getur þá biskup Íslands falið öðrum presti að gegna embættinu til allt að eins árs í senn. Ákvæði þetta fellur úr gildi 1. janúar 2015.“

Með frumvarpinu er lagt til að bætt verði við lögin nýju ákvæði til bráðabirgða eins og hér kom fram þar sem biskupi er heimilað að setja prest tímabundið til að gegna embætti sóknarprests eða annars prests þjóðkirkjunnar þegar prestsembætti losnar vegna þess að viðkomandi prestur lætur af embætti eða forfallast af öðrum ástæðum. Lagt er til að setning í embætti verði aldrei til lengri tíma en eins árs í senn. Þá er ákvæðinu markaður sá tímarammi að það gildi ekki lengur en til 1. janúar 2015, þ.e. tímabundin ráðstöfun.

Frumvarp þetta er byggt á tillögu sem lögð var fyrir kirkjuþing og samþykkt með þingsályktun á kirkjuþingi árið 2010. Hvorki er í lögum um stöðu, stjórn og starfshætti kirkjunnar né í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins að finna heimildir til þess að setja prest tímabundið í embætti sem losnar. Til að skapa kirkjunni svigrúm til að hagræða í starfsemi sinni er rétt að veita henni nauðsynlegar heimildir til að setja tímabundið í laust embætti ef þær aðstæður skapast að embætti prests losnar vegna starfsloka prests eða af öðrum ástæðum. Þannig gæti biskup falið t.d. presti í einni sókn að sinna jafnhliða sínu embætti öðru embætti sem losnaði um ákveðinn tíma. Yrði slík hagræðing byggð að stefnumótun kirkjunnar um skipan sókna og prestakalla

Ég hef gert hér grein fyrir efnisatriðum frumvarpsins. Ég legg því til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til allsherjarnefndar og 2. umr.