139. löggjafarþing — 102. fundur,  29. mars 2011.

greiðsla ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota.

630. mál
[14:42]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. innanríkisráðherra fyrir að flytja þetta frumvarp til laga um breytingu á lögum um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota. Ég verð að játa það strax í upphafi að mér hefur ekki gefist rými til að kynna mér nákvæmlega efni þessa frumvarps eða þau sjónarmið sem frumvarpið byggir á en það kemur fram í athugasemdum við frumvarpið að það hafi verið samið í dóms- og mannréttindaráðuneytinu, sem í dag heitir innanríkisráðuneyti, og sé til komið vegna athugasemda sem komu frá umboðsmanni Alþingis á árinu 2008.

Í ágætlega ítarlegri greinargerð með frumvarpinu er því lýst að með lögum nr. 118/1999 hafi 6. gr. þessara laga verið breytt á þann hátt að við bættist ný málsgrein þar sem kveðið var á um að þegar veigamikil rök mæltu með því væri heimilt að víkja frá skilyrðum 1. og 2. mgr. ákvæðisins um greiðslur til þolenda. Samkvæmt athugasemdum í greinargerð væri tilefni frumvarpsins erindi umboðsmanns barna til dómsmálaráðherra þar sem þess var farið á leit að skilyrði 6. gr. laganna yrðu endurskoðuð vegna þess að þau ættu illa við þegar um kynferðisbrot gegn börnum væri að ræða. Í greinargerðinni kemur fram að við tilteknar aðstæður geti verið rétt að víkja frá skilyrðum og það eigi sérstaklega við þegar brotið væri gegn barni. Það er rökstutt með því að börn hefðu ekki náð nægilegum þroska, a.m.k. í flestum tilvikum, til að gera sér grein fyrir því að um refsivert brot gegn því hefði verið að ræða, auk þess sem aðstæður þess til að kæra brot kynnu að vera erfiðar til að mynda vegna náinna tengsla milli barns og brotamanns. Undir þetta er full ástæða til að taka. Þá er það rakið að í greinargerðinni hafi komið fram að einnig kunni að koma til önnur atvik þar sem rétt sé að víkja frá skilyrðum 6. gr. og væri heimildin til að víkja frá þeim því ekki einskorðuð við tilvik þar sem börn væru þolendur þannig að heimildin gæti átt við í fleiri tilvikum.

Síðan er rakið að ekki hafi verið gerð breyting á bráðabirgðaákvæði laganna en í því felst að lögin veiti ekki heimild til að taka tillit til sérstakra aðstæðna í málum vegna brota sem framin hafi verið á tímabilinu frá 1. janúar 1993 til 30. júní 1996, jafnvel þótt í hlut eigi einstaklingar sem voru börn að aldri 1. júlí 1997 eða af öðrum sérstökum ástæðum höfðu ekki tök á því að leggja fram umsókn um bætur fyrir þann tíma, og fyrir því geta verið margvíslegar ástæður.

Með þessu frumvarpi fæ ég ekki betur séð en verið sé að reyna að tryggja, eins og segir í greinargerðinni, fullt jafnræði milli réttinda einstaklinga til greiðslu bóta samkvæmt lögunum jafnvel þótt óumdeilt sé að brot það sem framið hefur verið falli undir gildissvið þeirra. Þetta tel ég mjög mikilvægt í ljósi eðlis þessara brota og þess hverjir þolendur þeirra eru. Þá segir í greinargerðinni:

„Í ljósi þessa er í frumvarpi þessu lögð til breyting á bráðabirgðaákvæði laga um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota þannig að heimilt verði að víkja frá skilyrði ákvæðisins um að umsókn um bætur vegna tjóns sem leitt verður af broti sem framið var fyrir 1. júlí 1996 skuli hafa borist bótanefndinni innan árs frá gildistöku laganna, ef veigamiklar ástæður eru fyrir hendi. “ — Og vísað er til almennra sjónarmiða sem áður höfðu verið færð fram í umræðum um þau lög sem nú er lögð til breyting á.

Ég segi fyrir mitt leyti að ég tel fulla ástæðu til þess að hv. allsherjarnefnd vinni hratt að því að yfirfara þetta mál. Mér sýnist fljótt á litið að mjög rík réttlætisrök búi að baki þessu frumvarpi, rök sem snúa að jafnræði þeirra sem orðið hafa fyrir brotum og eru tjónþolar, ekki síst barna sem orðið hafa fyrir kynferðislegum brotum. Í 1. gr. frumvarpsins segir að heimilt sé að víkja frá því skilyrði sem núgildandi ákvæði mælir fyrir um, mæli veigamikil rök fyrir því. Ég vek athygli á því að orðin „veigamikil rök“ eru auðvitað mjög matskennt orðalag, það sem einum kann að þykja veigamikil röksemd, því kann einhver annar að vera andsnúinn. Ég tel mikilvægt að við meðferð málsins í allsherjarnefnd sé það skýrt mjög ákveðið í nefndaráliti hvað átt er við með hugtakinu „veigamikil rök“ þannig að það fari ekki á milli mála til hvaða aðstæðna þessu frumvarpi er ætlað að taka og hvaða tilvik eru undanskilin.

Að þessu sögðu, virðulegi forseti, vil ég þakka fyrir framlagningu þessa frumvarps og vil lýsa því yfir fyrir mitt leyti að ég er ákaflega jákvæður gagnvart þessari breytingu. Mér sýnist að hún sé verulega til bóta hvað varðar þau lög sem nú eru í gildi um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota.