139. löggjafarþing — 102. fundur,  29. mars 2011.

tóbaksvarnir.

579. mál
[14:59]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og fagna því að brugðist verði við. Hæstv. ráðherra telur þetta hafa mikið forvarnargildi og byggir á upplýsingum frá Lýðheilsustöð sem ég dreg ekki í efa, og sérstaklega í ljósi þess ef fyrir liggja upplýsingar um að verið sé að fara í sérstakt markaðsátak þá tek ég undir að gott er að bregðast við því.

Hæstv. ráðherra kom inn á íþróttahreyfinguna í andsvari sínu. Ég staldra dálítið við þar. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort honum sé kunnugt um að Lýðheilsustöð og íþróttahreyfingin hafi rætt saman um hvernig þessir tveir aðilar gætu unnið saman að þessu. Við þekkjum það jú að fólk í íþróttahreyfingunni er oft fyrirmynd og hefur kannski smitandi áhrif á þá yngri sem fylgjast með. Mér leikur því forvitni á að vita hvort hæstv. ráðherra geti upplýst um hvort aukið samstarf hafi verið á milli Lýðheilsustöðvar og ráðuneytisins og íþróttahreyfingarinnar um hvernig megi bregðast við aukinni munntóbaksnotkun hjá íþróttamönnum.