139. löggjafarþing — 102. fundur,  29. mars 2011.

tóbaksvarnir.

579. mál
[15:09]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að fagna því að lagt sé fram frumvarp þar sem loksins er bönnuð einhver tegund nikótínafurða, þ.e. að raunverulega sé verið að banna eina tegund tóbaks. Ég held að það séu í raun og veru afar góð skilaboð. Ég er ekki sammála því sem hefur komið fram, að þetta sé handahófskennt, heldur langar mig miklu fremur að spyrja hæstv. ráðherra hvort honum þætti ekki ástæða til að banna fleiri tegundir tóbaks en þá sem hér um ræðir.

Það er löngu vitað og hefur legið fyrir áratugum saman að um er að ræða vörur sem eru afar hættulegar og kostnaðarsamar fyrir samfélagið til lengri tíma litið. Nettóávinningur samfélagsins af notkun þessara vara er alls enginn og raunar miklu fremur kostnaður. Því held ég að spurningin eigi að vera þessi: Er ástæða til að ganga eilítið lengra eða getum við treyst því að hæstv. ráðherra sé einungis að stíga fyrsta skrefið og fleiri verði stigin í framhaldinu?