139. löggjafarþing — 102. fundur,  29. mars 2011.

tóbaksvarnir.

579. mál
[15:10]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að gefa neinar yfirlýsingar um að tóbak verði almennt bannað á Íslandi á næstu vikum eða mánuðum, en ég held að það verði áfram í umræðunni. Ég held að við munum stíga frekari skref í sambandi við að hindra tóbaksnotkun, fyrst og fremst kannski af heilsufarsástæðum en auðvitað líka vegna kostnaðar fyrir samfélagið að öðru leyti.

Það er fróðlegt fyrir fólk, a.m.k. á mínum aldri, sem man hvernig þetta var hér áður fyrr þegar maður var á kennarastofunni þar sem var reykt og það var alveg sama hvar maður kom inn á sjúkrahús, þar var reykt út um allt. Þá var umræðan nákvæmlega eins og nú, að það mætti ekki banna eða setja boð og bönn, það væri ástæðulaust. Síðan áttuðu menn sig á því smátt og smátt að það væri kannski skynsamlegt að setja einhverjar reglur og menn stóðu svo sameiginlega að því að setja hér býsna þéttar reglur. Ísland hefur oft verið í fararbroddi og til fyrirmyndar hvað varðar þann þátt. Ég held að það yrði ánægjulegt ef við værum það líka hvað varðar skrotóbakið eða réttara sagt þetta lyktar- og litarbætta skrotóbak.

Ég ætla ekki að svara því hvort eigi að ganga lengra. Ég held að þróunin verði í þá átt að óhjákvæmilegt verði að setja ýmsar strangari reglur en auðvitað verða þær að fylgja samfélagstaktinum. Ég held að það sé rétt að það þýði ekkert að setja bara reglur — það verður að vera einhver jarðvegur fyrir þær, það þarf fræðslu og áróður til þess að móta viðhorfið. Við sjáum hvað gerist ef við getum fyrirbyggt að unga kynslóðin ánetjist munntóbaki og neftóbaki. Þá er spurning hvað gerist, hvort tóbaksnotkun deyr ekki út með hækkandi aldri þeirra sem nota tóbak í dag.