139. löggjafarþing — 102. fundur,  29. mars 2011.

tóbaksvarnir.

579. mál
[15:25]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi máls míns byrja á að þakka hv. þm. Þráni Bertelssyni hreinskilnina í ræðu sinni og þakka honum einnig fyrir að benda á að vissulega er nikótíns neytt í fjölbreyttara formi en bara í tóbaki. Ég er að því leyti til alveg sammála hv. þingmanni hvað það varðar að ekki er endilega gefið að það sé eitthvað betri kostur að neyta nikótíns í formi tyggjós, þ.e. heilsufarslega er það líklega lítið betra, hins vegar er kosturinn sem snertir umhverfið og þá sem í kring standa augljós, þ.e. þeir þurfa þá ekki að vera í reyknum sem af tóbaksnotkuninni hlytist ella.

Hv. þingmaður nefndi það í ræðu sinni að hann vissi ekki til þess að nokkur maður hefði skaðast alvarlega eða dáið, ég held að hv. þingmaður hafi orðað það svo, af því að nota munntóbak, held ég að hann hafi nefnt, en átti kannski við munn- og neftóbak. Mig langar þá að spyrja hv. þingmann: Er einhver ástæða til að bíða eftir því að einhver bíði svo alvarlegt heilsutjón af þessari vöru að við treystum okkur ekki til að segja að hún eigi ekki að vera á markaði? Ef það á að vera mælikvarðinn, hvað þurfa margir að bíða svo mikið heilsutjón að við að treystum okkur til að segja nei, þetta er nú sennilega ekki skynsamlegt?