139. löggjafarþing — 102. fundur,  29. mars 2011.

tóbaksvarnir.

579. mál
[15:27]
Horfa

Þráinn Bertelsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Minn ágæti félagi, Ólafur Þór Gunnarsson þingmaður, og öldrunarlæknir minn, spyr hvað ég telji hæfilegt að margir látist úr munntóbaksneyslu áður en munntóbak verður bannað. Ef hann er að spyrja um Ísland þætti mér passlegt 25 dauðsföll sem óvefengjanlega stöfuðu af neyslu munntóbaks áður en að það væri bannað. Ég vona að það svari spurningunni.

Mig langar samt aðeins að lýsa furðu minni aftur yfir þessu frumvarpi vegna þess að ég fullyrði að enginn vinnustaður á Íslandi er jafnlöðrandi í tóbaki án þess að sé reykt og þessi vinnustaður. Hérna taka menn í nefið frá morgni til kvölds eins og ekkert sé sjálfsagðara. Og ég sé ekki annað en að menn séu bara með hressasta móti hér og neftóbaksmennirnir yfirleitt alveg í sérflokki nema kannski þegar líður á daginn og það svífur á þá höfgi, þá kemur svona notalegt snörl úr rananum á þeim og tóbaksilmurinn hér í salnum vekur manni bara góðar minningar úr æskunni um afa og neftóbak og svoleiðis.

Svarið til þingmannsins er að ég tel hæfilegt að það séu 25 staðfest dauðsföll af munntóbaksneyslu áður en við bönnum munntóbak. (Gripið fram í.)