139. löggjafarþing — 102. fundur,  29. mars 2011.

stofnun sameignarfyrirtækis um Orkuveitu Reykjavíkur.

624. mál
[15:54]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Ég hafði upphaflega ætlað mér að fara í stutt andsvar við hv. þm. Kristján Möller, formann iðnaðarnefndar, út af frumvarpinu sem hér er til umfjöllunar, til breytinga á lögum um stofnun sameignarfyrirtækis um Orkuveitu Reykjavíkur. En til að greiða fyrir þingstörfum féll ég frá andsvarinu og féllst á að halda þess í stað stutta ræðu um málið.

Með frumvarpinu eins og ég skil það er verið að leggja til að ákvæði laga um Orkuveitu Reykjavíkur verði sambærileg ákvæðum laga um Landsvirkjun komi fram beiðnir um greiðslustöðvun, nauðasamninga eða gjaldþrotaskipti á því fyrirtæki, til að tryggja að gerðar séu sömu kröfur um eigendaábyrgð Landsvirkjunar og Orkuveitu Reykjavíkur.

Málefni Orkuveitunnar hafa mikið verið til umfjöllunar á síðustu vikum, nánast þessa stundina meðan þessi umræða fer fram. Ég veit ekki hverjar lyktir málsins voru en af fréttaflutningi að dæma hefur verið lagt til, a.m.k. í borgarráði, að Orkuveitu Reykjavíkur verði lagðir til 11 milljarðar kr. til að rétta af fjárhagsstöðu fyrirtækisins sem einu sinni var gullgæs okkar Reykvíkinga. Gagnrýnt hefur verið að borgarstjórinn í Reykjavík hafi haft uppi ummæli um fjárhagsstöðu Orkuveitunnar og lýst stöðunni þannig að Orkuveitan sé á hausnum og menn hafa gert því skóna að slíkar yfirlýsingar frá, hvað eigum við að segja, talsmanni helsta eiganda fyrirtækisins hafi gert það að verkum að lánveitendurnir sem Orkuveitan hefur verið í samskiptum við hafi í kjölfarið ákveðið að halda að sér höndum og verið tregari en ella til að veita fyrirtækinu þá lánafyrirgreiðslu sem því er nauðsynleg. Þetta er út af fyrir sig mjög alvarlegt mál, bæði fyrir Orkuveitu Reykjavíkur og okkur borgarbúa. Ef rétt er að borgarstjórinn í Reykjavík hafi gengið fram með þessum hætti og haft uppi yfirlýsingar sem þessar, held ég að segja megi að slíkar yfirlýsingar frá manni í hans stöðu séu ákaflega ábyrgðarlausar með hliðsjón af þeim hagsmunum sem í húfi eru.

Vegna þess alls hrökk ég svolítið í kút þegar ég sá þetta frumvarp vegna þess að það varðar atriði sem snýr að eigendaábyrgð Orkuveitu Reykjavíkur ef fram kemur beiðni um greiðslustöðvun, nauðungarsamninga, eftir atvikum gjaldþrotaskipti, á þessu tiltekna fyrirtæki. Það er kannski ekki mjög heppilegt inn í umræðuna sem verið hefur um málefni Orkuveitunnar og yfirlýsingu borgarstjórans í Reykjavík um stöðu Orkuveitunnar að á sama tíma komi fram á Alþingi frumvarp sem mælir fyrir um hvernig haga eigi eigendaábyrgð komi til þess að fyrirtækið verði sett í greiðslustöðvun, nauðasamninga óskað eða fram komi krafa eða beiðni um gjaldþrotaskipti.

Það segir hins vegar í greinargerð með frumvarpinu að með ákvæðinu sé komið til móts við kröfur Eftirlitsstofnunar EFTA þannig að tryggt sé að Orkuveita Reykjavíkur líkt og Landsvirkjun lúti sömu reglum um gjaldþrotaskipti, greiðslustöðvun og nauðasamninga og önnur félög með takmarkaðri ábyrgð. Ég vildi bara fá fulla tryggingu og staðfestingu fyrir því að iðnaðarnefnd leggi til þessa breytingu vegna athugasemda frá Eftirlitsstofnun EFTA og að lagabreytingin hafi ekkert með fjárhagsstöðu Orkuveitu Reykjavíkur að gera eða umræðuna sem hefur átt sér stað í tengslum við fyrirtækið á umliðnum vikum.

Ég tel mjög mikilvægt að slík yfirlýsing komi frá formanni iðnaðarnefndar í ljósi umræðunnar til að slá út af borðinu allar hugsanlegar áhyggjur sem upp kunna að koma um að Orkuveita Reykjavíkur sé hugsanlega að fara þá leið sem frumvarpið fjallar að sínu leyti um.

Ég vildi bara undirstrika þetta og óska eftir því að ef þetta er réttur skilningur hjá mér að framlagning frumvarpsins hafi í rauninni ekkert með fjárhagsstöðu Orkuveitu Reykjavíkur að gera heldur lúti fyrst og fremst og eingöngu að athugasemdum sem fram hafa komið frá Eftirlitsstofnun EFTA, þá staðfesti hv. þm. Kristján Möller að svo sé þannig að áhyggjur okkar sem eru töluverðar af þróun mála í Reykjavíkurborg og varðandi málefni Orkuveitunnar séu ástæðulausar.