139. löggjafarþing — 102. fundur,  29. mars 2011.

stofnun sameignarfyrirtækis um Orkuveitu Reykjavíkur.

624. mál
[16:00]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum hér enn eitt furðumálið. Í fyrsta lagi er verið að lagfæra nýlega sett lög og samræma ákveðið ákvæði lögum sem sett voru um Landsvirkjun. Það er reynt að halda í það form að þetta séu sameignarfélög, þó að í tilfelli Landsvirkjunar sé þá um að ræða sameignarfélag þar sem ríkið er eigandi með sjálfu sér, það er bara einn eigandi hjá Landsvirkjun en samt heitir þetta sameignarfélag. Hér eru þó fleiri sameignareigendur, mér skilst að þeir séu þrír, allt sveitarfélög. Og það er verið að samræma þetta við það atriði.

Fyrsta atriðið sem ég vil koma inn á er að þetta er galli í lagasetningu sem verið er að leiðrétta. Það skyldi þó ekki vera að hraðinn á öllum málum hér á hinu háa Alþingi leiði til svona leiðréttinga.

Í öðru lagi er mjög furðulegt fyrirbæri að segja að sameignarfélög skuli lúta sömu reglum og félög með takmarkaða ábyrgð, þ.e. hlutafélög. Í staðinn ætti að kalla þetta hlutafélag þegar það er undir ákvæðum um hlutafélög sem eru miklu nákvæmari. Það er annað furðuatriðið í þessu.

Þriðja er svo, eins og hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson kom inn á rétt áðan, málefni Orkuveitu Reykjavíkur sem eru í alveg geigvænlegri stöðu. Það er ekki gott í þeirri stöðu ef fulltrúi stærsta eigandans, fulltrúi ábyrgðaraðilans, kemur fram og segir að fyrirtækið sé í miklum vandræðum. Maður gerir það ekki, frú forseti, um sama leyti og maður ætlar að biðja um lán, maður kemur ekki til einhvers manns og segir: Ég er gjaldþrota, geturðu lánað mér? Það gerir maður ekki. Maður reynir a.m.k. að þegja, það er betra þegar maður er í miklum vandræðum.

Ég vil benda á að 10 milljarðar — það er rétt aðeins farið að fjúka í hugtökin. Hvað þýða 10 milljarðar? Þeir þýða u.þ.b. 100 þús. kr. á hvern íbúa í Reykjavík. Þetta eru svona 300 þús. kr. á hverja fjölskyldu í Reykjavík. Ef maður reiknar með tveim, þrem í hverri fjölskyldu eru þetta 200–300 þús. kr. Þetta kemur til viðbótar við 400 þús. kallinn sem við settum um daginn inn í Íbúðalánasjóð eins og ekkert væri. Þetta kemur líka til viðbótar Icesave sem þjóðin á að greiða atkvæði um 9. apríl. Hérna hefur aðallega verið talað um hvað gerist ef við segjum já. Þá getur gerst bæði gott og slæmt, og getur sérstaklega gerst mjög slæmt ef allt fer á verri veg, ekki einu sinni versta veg, og þá getum við lent í því að við ráðum ekkert við það að borga þetta af því að Icesave er borgað í gjaldeyri.

Vandi Orkuveitunnar er einmitt sá að Orkuveitan er nákvæmlega í sömu stöðu og einstaklingar sem tóku gengistryggð lán til að kaupa bíl eða eitthvað slíkt, hún tók lán í erlendri mynt og hún er með tekjur í íslenskum krónum. Þetta er vandinn. Þetta er sami vandinn og með Icesave því að ríkissjóður er með tekjur í íslenskum krónum, en Icesave er í erlendri mynt. Það er alveg gífurleg áhætta af genginu.

Hins vegar finnst mér hafa verið talað allt of lítið um hvað gerist ef menn segja nei við Icesave. Mér finnst það mjög góður kostur, í fyrsta lagi eigum við ekkert að borga Icesave og í öðru lagi er hugsanlegt að farið verði í málaferli ef við segjum nei. Það er gott mál því að ef við töpum vitum við a.m.k. að við eigum að borga þetta og þá borgum við kannski eilítið glaðari á brún, en ef við vinnum málið sem ég tel vera töluvert miklar líkur á, verulega miklar líkur, borgum við ekki neitt og endurheimtum æru okkar og virðingu um allan heim. Þá getum við sagt við alla útlendingana að við áttum aldrei að borga þetta. Svo borgum við að sjálfsögðu ekki krónu, hvorki pund né evru, ef það skyldi verða.

Það mál sem við ræðum hérna hefur á vissan hátt ákveðna samleitni við lögin um Icesave sem þjóðin greiðir atkvæði um og ég vonast til að hún segi nei við.

Þetta eru þrjú atriði sem ég tengi hérna saman. Það er galli í lagasetningu. Þetta er furðulegt fyrirbæri, það er verið að láta sameignarfélag líta út eins og hlutafélag. Svo gæti einhver tengt þetta við málefni Orkuveitu Reykjavíkur og ég vil spyrja sömu spurningar og hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson: Getur verið að það sé einhver samtenging þarna á milli? Ég vona ekki, en þetta kemur á afskaplega óheppilegum tíma inn í þau vandræði sem þar er um að ræða vegna þess að ef einhver ætlar að lána einhverjum peninga gerir hann það í trausti, hann byggir á trausti. Menn verða að treysta eigendum og öðrum.