139. löggjafarþing — 102. fundur,  29. mars 2011.

landlæknir og lýðheilsa.

190. mál
[16:42]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég saknaði örlítið meiri jákvæðni, bjartsýni og kannski uppbyggilegri tillagna um hvað við gætum gert til úrbóta.

Hv. þingmanni varð tíðrætt um eftirlit og að við þyrftum að safna upplýsingum, það þyrftu að vera til samræmdar upplýsingar svo við gætum haft gott eftirlit með okkar ágæta heilbrigðiskerfi. Ég deili svo sannarlega þeirri skoðun með hv. þingmanni. Mig langar til að fá hann til að skýra fyrir mér í mjög grófum dráttum hvernig hann telji að eftirlitinu eigi að vera háttað og hvort þessi sameining muni koma í veg fyrir bætt eftirlit. Mér fannst ég geta skilið mál hv. þingmanns sem svo að með þessu værum við að hamla eftirlitinu.

Stefnan með sameiningu á heilbrigðissviði hefur verið að búa til breiðar og faglegar, sterkar stofnanir. Mér finnst að slíkar stofnanir hljóti að vera líklegar til að geta safnað þeim upplýsingum sem þarf vegna þess að eftirlit krefst þess að við höfum ákveðnar upplýsingar. Sameiningar- eða samlegðaráhrifin eiga síðan að koma fram með nýtingu stofnþjónustu, svo sem tölvum, afgreiðslu, síma og öðru slíku, þar getum við nýtt samlegðina.

Vegna þess að hv. þingmanni hefur orðið svo tíðrætt um þetta langar mig að inna hann aftur eftir því, ég gerði það líka við 2. umr., hvernig honum lítist á að við búum til virkilega stóra og öfluga eftirlitsstofnun velferðarmála nú þegar við höfum þetta stóra ráðuneyti og getum í raun og veru nýtt samlegðina. Finnst honum ekki að þar geti legið stór og góð tækifæri til að efla eftirlit með allri velferðarþjónustunni?