139. löggjafarþing — 102. fundur,  29. mars 2011.

landlæknir og lýðheilsa.

190. mál
[16:44]
Horfa

Frsm. minni hluta heilbrn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir prýðilegt andsvar. Hv. þingmaður velti upp málum sem við ættum að ræða. Ég hefði talið eðlilegt að við ættum að nálgast þetta nákvæmlega svona. Það sem hefur vantað í flesta málaflokka á Íslandi, sérstaklega heilbrigðisþjónustuna og það sem við köllum velferðarmál, er stefnumótun. Í ráðuneyti á Íslandi hefur almennt vantað að unnið væri í stefnumótun. Vel undirbúin stefnumótun skilar sér alltaf. Við sameiningu ráðuneytanna spurðist ég fyrir um hvaða tækifæri væru í þessari samlegð sem talað var um. Hvar liggja þau? Hvað hafa menn unnið varðandi þau? Svörin voru engin. Ef einhver tækifæri eru þar væri gott að það kæmi fram en það hefur ekki enn komið fram. Ég hef spurst fyrir um þetta bæði skriflega og munnlega. Ég veit ekki hvar þau tækifæri liggja og það lá að minnsta kosti ekki fyrir þegar menn sameinuðu ráðuneytin. Það er nákvæmlega þannig sem menn eiga ekki að vinna.

Jákvæðni og bjartsýni. Ég er jákvæður og bjartsýnn að eðlisfari en hlutverk mitt er að veita eftirlit með meiri hlutanum og ég fer ekki í grafgötur með það, ég varð fyrir gríðarlegum vonbrigðum í þessu máli og ég held að við hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins höfum reynt allt, bæði með góðu og hörku, til að fá að ræða nákvæmlega þá hluti sem hv. þingmaður nefndi, og fara almennilega yfir þá.

Hvernig á að haga eftirlitinu? Menn verða að hafa sambærilegar tölur. Ef bornar eru t.d. saman aðgerðir milli stofnana verður að tryggja að verið sé að tala um sömu aðgerðir. Eins og kom fram varðandi samanburð hjúkrunarheimila í skýrslu Ingibjargar Hjaltadóttur, verða upplýsingarnar þá miklu betri til þeirra aðila sem þurfa á þjónustunni að halda. Það er jákvæður hvati til að þær stofnanir sem standa sig ekki (Forseti hringir.) geti staðið sig betur.

Virðulegi forseti. Ég skal reyna að svara þessu betur í seinna andsvari en ég fagna þessari umræðu.