139. löggjafarþing — 102. fundur,  29. mars 2011.

landlæknir og lýðheilsa.

190. mál
[16:48]
Horfa

Frsm. minni hluta heilbrn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi samningana hef ég ekki hugmynd um hvað lá þar til grundvallar, þetta var ekki gert í minni tíð. Ef ég man rétt var einn leigusamningur gerður þegar ég var ráðherra, við Sjúkratryggingar Íslands. Það var afskaplega hófleg leiga þótt samningurinn væri gerður á þeim tíma þegar mikil bólga var á húsnæðismarkaðnum. Ekki var svo sem neitt spreðað þegar kom að húsnæðinu þar eins og allir sjá sem þangað koma. Ég get því ekki upplýst hv. þingmann um þetta.

En hvað átti að gera? Auðvitað hefðu menn átt að reyna að finna einhvern flöt á þessu ef þeir ætluðu að flytja starfsemina, byrja á því að setja einhverja aðra starfsemi þarna inn eða reyna að gera það þannig að hætta væri ekki á því að menn stæðu uppi með autt húsnæði sem þyrfti síðan að borga gríðarlega háa leigu fyrir. Það er ekki hægt að hafa það neitt verra. Þetta er búið að skoða síðan í mars.

Ég er alveg sammála því að aðskilja eigi eftirlitið frá framkvæmdinni. Ég reyndi að gera það í minni tíð sem ráðherra. Allt er það rétt varðandi gæðin sem hv. þingmanni nefndi. Það sem vantar er stefnumótunin. Virðulegi forseti. Ég var ráðherra og það hvarflaði ekki að mér að staðan væri eins og hún kemur fram hjá Ingibjörgu Hjaltadóttur. Við höfðum sérstaka stofnun til að hafa eftirlit með þessu, landlæknisembættið. Það var engin dvergstofnun á íslenskan mælikvarða. Augljóst er að eitthvað vantar upp á stefnumótunina í þessum málaflokki og við eigum að taka á því. Við vitum ekkert. Við erum ekki að vinna þessa vinnu, ekki vann framkvæmdarvaldið stefnumótunarvinnuna. Við erum ekkert annað en afgreiðslustofnun fyrir framkvæmdarvaldið þegar kemur að þessu máli., það verður að segjast eins og er. Vonandi gengur þetta stórkostlega en við vitum ekkert um það og höfum ekki lagt nein drög að því. Stór stofnun getur verið góð, slæm og allt þar á milli, þar koma margir þættir inn í. Ég get farið yfir reynslu mína af því. Það er ekkert samasemmerki þarna á milli; þótt við mundum skella öllum stofnunum ríkisins saman í eina stofnun og (Forseti hringir.) gætum hugsanlega sparað einhvern símakostnað í augnablikinu er það engin trygging fyrir gæðum.