139. löggjafarþing — 102. fundur,  29. mars 2011.

landlæknir og lýðheilsa.

190. mál
[16:55]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja að ég bjóst svo sem ekki við að þingmaðurinn mundi benda á tilteknar lagagreinar þar sem hann vildi herða á þessum þáttum enda hefur hann eins og við hin haft næg tækifæri til þess í umræðunni en ekki gert það í öðru en að benda á að það vanti meira eftirlit. Það er ekki nema eðlilegt að við hin bendum á það og spyrjum: Er það vegna þess að peninga vanti? Ég ítreka, eins og ég sagði áðan, ég tel að nægar lagaheimildar séu til.

Varðandi fjármagnið hefði ég haldið að útskýringarnar sem hv. heilbrigðisnefnd fékk hefðu átt að duga. Það liggur fyrir, bæði í greinargerð með frumvarpinu og eins hefur það verið margítrekað fyrir heilbrigðisnefnd, að þrátt fyrir sameininguna eiga þessar stofnanir að vera innan fjárheimilda sem fjárlög ársins 2011 segja til um. Hvergi er nefnt í lagafrumvarpinu að auka eigi fjármagn til þessara stofnana vegna sameiningarinnar.

Mig langar hins vegar að inna hv. þingmann eftir því hvort honum finnist að vegna slæms leigusamnings sem gerður var fyrir einum 7 eða 8 árum eigi hreinlega að stoppa alla vinnu við að sameina stofnanirnar. Á það bara að bíða vegna þess einhver vondur leigusamningur sé þarna til staðar? Á að láta stofnunina gjalda þess? Á að láta landlækni og lýðheilsu gjalda þess að þarna á bak við sé slæmur leigusamningur? Ég er alls ekki sammála því að við eigum að gera það. Það þarf vissulega að leysa það mál, ég er algerlega sammála hv. þingmanni um það, en við megum ekki láta það stoppa sameininguna.